Tón­listar­konan Aldous Harding spilar á tón­leikum í Hljóma­höllinni í Reykja­nes­bæ að kvöldi mánu­dagsins 15. ágúst og Grímur Atla­son, tón­leika­haldari með meiru, segir að nú fari hver að verða síðastur til að tryggja sér miða af þeim rétt um 100 sem eftir eru á Tix.is.

„Við erum að tala um ný­sjá­lenskan hval­reka. Hún er al­gjör­lega stór­kost­leg,“ segir Grímur og er nokkuð niðri fyrir þegar hann talar um Harding, sem hefur frá sinni fyrstu plötu, Aldous Harding frá 2014, ekki síður vakið at­hygli fyrir laga­smíðar en flutning.

„Hún kemur fram með þessa plötu sem hét bara eftir henni og vakti smá at­hygli,“ segir Grímur sem hefur fylgst með Harding frá fyrstu plötunni. „2017 kemur hún með aðra plötu sem heitir Par­ty og þá opnuðust gáttirnar. Þá kom hún og spilaði á Airwa­ves hjá mér í Frí­kirkjunni og var stór­kost­leg.“

Búinn að reyna lengi

Grímur segist allar götur síðan vera búinn að reyna að fá hana til þess að koma aftur og halda sína eigin tón­leika. „Það hefur gengið illa. Við vorum að spá í fyrra en það gekk ekki. Náttúr­lega búið að vera Co­vid og vesen en í milli­tíðinni er hún búin að gefa út tvær plötur; Designer 2019 og svo Warm Chris núna í ár.“

Grímur segir tón­leika­hald Harding vera að komast á al­menni­legt skrið eftir heims­far­aldurinn. Hún sé búin að vera á ferð um Banda­ríkin, þræði tón­listar­há­tíðir og sé á ferð um Evrópu þegar hún tekur smá krók til að koma við á Ís­landi sem sé ekki sjálf­gefið, enda landið ekki í al­fara­leið.

Harding hefur unnið síðustu þrjár plötur sínar, Par­ty, Designer og Warm Chris, með tón­listar­manninum John Parish, sem er meðal annars þekktur fyrir sam­starf sitt með PJ Harvey, Eels og Tra­cy Chap­man.

Par­ty og Designer fengu ein­róma lof gagn­rýn­enda og tón­listar­unn­enda um allan heim. Designer fékk þannig fullt hús fimm stjarna hjá tíma­ritinu Q og The In­dependent og lagið Barrel náði tals­verðri spilun á Ís­landi þegar það kom út í febrúar 2019.

Grímur segir nýju plötuna, Warm Chris, einnig hafa fengið frá­bæra dóma og bendir á að Clash gaf plötunni 9 í ein­kunn og Mojo og Uncut 8. Lögin Fewer og Lawn af Warm Chris hafa heyrst á öldum ljós­vakans síðustu vikur.

Vá!

„Hún er alveg þekkt hér, hjá þeim sem hlusta á tón­list,“ segir Grímur, þegar hann út­skýrir hvers vegna að­eins um 100 miðar eru eftir þegar tæp vika er í tón­leikana. Þá bætir hann við að ekkert sé að því að opna stundum að­eins og prufa eitt­hvað nýtt.

„Vegna þess að það er alltaf þetta sama, ég full­yrði að þeir sem fara á tón­leika með svona lista­mönnum segja bara: Vá! Af hverju er ég ekki búinn að gera þetta fyrr? Af því að maður er alltaf í þessu sama rugli, þú veist. Mín kyn­slóð festist bara í Pixies eða eitt­hvað. David Bowi­e eða eitt­hvað, sem er yndis­legt en maður þarf að halda á­fram.“

Grímur segist sjálfur vera svo heppinn að hafa aldrei staðnað alveg. „Ég er búinn að halda tón­leika allan þennan tíma og þá var maður alltaf að spá í hvað er að gerast og Airwa­ves ýtti mér alveg fram af bjarg­brúninni með það að reyna að vera alltaf að hlusta á eitt­hvað nýtt. Ekki bara Bowi­e, sko, og Duran eru fínir skilurðu, en það má alveg hlusta á eitt­hvað annað. Ég held líka bara að vaxandi hugar­far sé málið. Annars bara koðnar maður inni og verður ó­hamingju­samur.“

Tvö­faldur skammtur

Velski tón­listar- og fjöl­miðla­maðurinn H. Hawkline hitar upp fyrir Aldous Harding. Hann hóf sóló­feril sinn árið 2010 og hefur síðan þá gefið út fjórar plötur. Hann hefur unnið með Cate Le Bon og Kevin Mor­by og síðustu árin með Aldous Harding. „Hann er kærastinn hennar og er í bandinu líka þannig að maður er að fá svo­lítið tveir fyrir einn af stór­kost­legri tón­list,“ segir Grímur.

Hljóma­höllin opnar klukkan 19 á mánu­dags­kvöld og tón­leikarnir hefjast klukku­stund síðar. Rútu­ferðir eru í boði milli Reykja­víkur og Hljóma­hallarinnar í Reykja­nes­bæ, fyrir þá sem vilja, en Grímur segir vel þess virði að leggja á sig smá akstur til þess að njóta tón­listar Harding.

„Hljóma­höllin er lang­besta húsið á Ís­landi af þessari stærðar­gráðu og það er ó­geðs­lega gott að fara á tón­leika þarna,“ segir Grímur sem talar ekki alveg út í bláinn, hokinn af reynslu af tón­leika­haldi síðan 1987.