Húsið sem stendur á klöppum á náttúruverndarsvæðinu Bear Run var upprunalega hugsað sem helgarheimili fyrir viðskiptajöfurinn og verslunareigandann Edgar Kaufmann og fjölskyldu hans. Fjölskyldan var vön að fara reglulega í frí að fossinum og óskaði eftir því við Wright að hanna hús sem stæði á móti fossinum svo þau hefðu útsýni yfir hann. Wright aftur á móti ákvað að hanna húsið ofan á fossinum sjálfum og gera hann þannig að hluta af húsinu.

Wright hafði lengi verið aðdáandi japanskrar byggingarlistar sem veitti honum innblástur við hönnun Fallingwater-hússins. Wright vildi skapa samspil milli mannsins og náttúrunnar og hafði það að leiðarljósi við hönnunina.

Hljóðið í fossinum þegar vatnið fellur á klappirnar ómar stöðugt um allt húsið. Húsið að innan er hannað út frá arninum sem Wright sá fyrir sér að yrði aðalsamkomustaður fjölskyldunnar. Klettur úr berginu brýst inn í arininn og gerir þannig náttúruna fyrir utan hluta af húsinu að innan. Öll hönnun innanhúss minnir á náttúruna í kring. Frá stofunni eru tröppur sem liggja beint út í fossinn fyrir neðan sem fjölskyldan nýtti sér oft til að dýfa sér í ána á heitum sumardögum. Það er lágt til lofts í herbergjum hússins til þess að augu fólk beinist út í átt að náttúrunni frekar en að leita upp á við.

Utanhúss eru stórar svalir á nokkrum hæðum sem raðast upp líkt og klappirnar sem fossinn fellur niður um. Þessi hönnun á svölunum gerir það að verkum að húsið fellur einstaklega vel að náttúrunni. Húsið er að mestu byggt úr steinsteypu en einnig úr sandsteini frá náttúrunni í kring. Húsið er tæpir 1.700 fermetrar en árið 1939 var bætt við rúmlega 500 fermetra gestahúsi.

Árið 2000 var Fallingwater valin fallegasta bygging 20. aldarinnar af samtökum bandarískra arkitekta. Í dag er húsið friðað. Það er í eigu minjastofnunar í Pennsylvaníu en sonur Kaufmann-hjónanna gaf stofnuninni húsið árið 1964. Í dag heimsækja hátt í 200 þúsund ferðamenn húsið árlega. Gestir geta fengið leiðsögn um húsið og gestafjöldi er takmarkaður.