Myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson var nýlentur á Íslandi frá Feneyjum, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi, þegar blaðamaður náði tali af honum. Hann var að vonum hæstánægður með opnun íslenska sýningarskálans sem fór fram síðasta laugardag.„Ég er svona að lenda en opnunarvikan gekk alveg ótrúlega vel. Alveg gríðarlegt magn af fólki og frábærar viðtökur,“ segir Sigurður.

Í þetta sinn er íslenski sýningarskálinn staðsettur á einu aðalsvæði Feneyjatvíæringsins í fyrrum skipasmíðastöðinni Arsenale. Sigurður segir það skipta miklu máli að vera svo miðsvæðis en flestir sem heimsækja tvíæringinn koma við á aðalsvæðinu Giardini auk Arsenale.

Ævarandi hreyfing (Perpetual Motion), er gríðarstór myndbandsinnsetning sem Sigurður lýsir sem „fjölskynjunarskúlptúr“.
Mynd/Sigurður Guðjónsson

Seglar og málmryk

Verkið Ævarandi hreyfing (Perpetual Motion), er gríðarstór myndbandsinnsetning sem Sigurður lýsir sem „fjölskynjunarskúlptúr“. Um er að ræða tvo sex metra fleka sem myndbandsverki er varpað á, einn sem gengur upp í loftið og einn sem liggur á gólfi niðri. Við gerð hljóðheimsins fékk Sigurður tónlistarmanninn Valgeir Sigurðson til liðs við sig og skapar samspil hljóðs og myndar kraftmikla heild.

„Efniviðurinn sem þú ert að horfa á í verkinu er málmryk sem er búið að kasta í kringum segul. Þessi efniviður er síðan kvikmyndaður, umbreyttur og bjagaður þannig að það myndast eins konar óreiðukennt landslag af efni sem fer í beint samtal við hljóðheiminn og fyllir alveg rýmið. Það má lýsa þessu sem endalausu streymi af efni sem gengur í gegnum strúktúrinn í rýminu,“ segir Sigurður, spurður um hvernig hann myndi lýsa verkinu.

Tveggja og hálfs árs ferli

Sigurður var valinn sem fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringinn í lok árs 2019. Hátíðin átti upphaflega að fara fram sumarið 2021 en vegna Covid var henni frestað um ár. Sigurður segist strax hafa farið á fullt í undirbúningsvinnu og nýtti tímann meðal annars í rannsóknir og listrænar tilraunir.

„En það sem gerist náttúrlega er að það kemur Covid og þá bara lokar heimurinn. Það var svolítið sérstakt ferli, þá er ég bara í tilraunamennsku í stúdíói og að framleiða. Í upphafi þá er ekki komið endanlegt sýningarrými en þegar við fáum það þá tek ég endanlega ákvörðun um verkið,“ segir Sigurður, spurður um vinnuferlið.

Efniviðurinn í Ævarandi hreyfingu er málmryk sem er búið að kasta í kringum segul.
Mynd/Sigurður Guðjónsson

Heimsótti CERN í Sviss

Sýningarstjóri Ævarandi hreyfingar er hin spænska Mónica Bello sem starfar sem sýn­ing­ar­stjóri við CERN, Evr­ópsku rann­sókna­stofn­un­ina í ör­einda­fræði í Genf. Mónica stýrir þverfaglega verkefninu Arts at CERN þar sem hún leiðir saman vísindamenn og listamenn í samtali og við upphaf vinnuferlisins bauð hún Sigurði í vettvangsheimsókn til Sviss.

„Hún bauð mér að koma til CERN, bæði til að skoða það og upplifa, en líka bara til þess að við gætum hist og tekið púlsinn. Það var ótrúleg upplifun að fara inn í stærstu vél í heimi og gott start á verkefninu,“ segir Sigurður.

Hann segir að heimsóknin til CERN hafi óneitanlega verið innblástur fyrir Ævarandi hreyfingu: „Ég get ekki neitað því. Það sem vísindamennirnir eru að gera í CERN er að skoða efnisheiminn í því skyni að öðlast skilning. Það veitti innblástur í sköpunarferlinu að heimsækja staðinn.“

Það var ótrúleg upplifun að fara inn í stærstu vél í heimi og gott start á verkefninu.

Gjörbreytir öllu

Íslenski sýningarskálinn og verk Sigurðar hafa þegar vakið mikla athygli og fengið umfjöllun í stærstu fagtímaritum myndlistarheimsins á borð við Wallpaper, The Art Newspaper og Artnet News, auk þess sem Financial Times valdi Ævarandi hreyfingu sem eitt ef fimm framúrskarandi verkum tvíæringsins.

Spurður um hvort hann telji að þátttakan í tvíæringnum muni skipta sköpum fyrir ferilinn og að það sé kannski nú þegar komið í gang: „Þetta gjörbreytir öllu, þessi sýnileiki og það er líka bara stórkostlegt að vera settur í þetta stóra samhengi.“

Sigurður ætlar ekki að slá slöku við enda er nóg á döfinni hjá listamanninum á næstu mánuðum, þar á meðal stór sýning í Listasafni Reykjavíkur.

„Það er bara hellingur af verkefnum. Næsta haust kemur Feneyjaverkið til Íslands og verður sett upp í glænýjum sýningarsal BERG Contemporary á Klapparstíg. Á sama tíma set ég upp stóra sýningu í Listasafni Reykjavíkur með blöndu af verkum þannig að áhorfendur geta upplifað Feneyjaverkið og tengt það við eldri verk og séð í aðeins stærra samhengi,“ segir hann að lokum.