Kvikmyndir

Godzilla vs. Kong

★★★★

Leikstjórn: Adam Wingard

Leikarar: Alexander Skarsgård, Millie Bobby Brown, Rebecca Hall, Brian Tyree Henry, Shun Oguri

Það er blús að komast ekki í bíó. Fjöldi skoðanakannana víðs vegar um heim hefur sýnt að kvikmyndahúsin eru eitt af því sem fólk saknar hvað mest í þessu fordæmalausa volli. Það er ekki hægt að fanga stemninguna heima fyrir, sama hversu miklu bíósalti er hellt yfir örbylgjupoppið. Þess vegna er frábært að fá ærið tækifæri til að skella sér í bíó þegar aðstæður leyfa. Godzilla og King Kong eru líklega einhver þekktustu nöfn kvikmyndasögunnar, þótt sá síðarnefndi hafi rétt eins og Harry prins afsalað sér konunglegum titlinum. Nú eru liðin tæp fimmtíu ár síðan skrímslin börðust síðast og því orðið tímabært að sjá hvernig bransinn hefur breyst á þeim tíma.

Furðulegt sögusvið

Myndin á sér stað nokkrum árum eftir atburði Godzilla: King of the Monsters. Þar var kynnt til sögunnar valdabarátta risaskrímslanna um að verða að einhvers konar alfaskrímsli sem öll önnur skrímsli lúta fyrir. Þar er ekki gengið til lýðræðislegra kosninga heldur er konungurinn útnefndur með blóðugum slagsmálum. Nú hefur mannkynið útbúið einhvers konar einangrunarrými fyrir Kong sem þarf rétt eins og við hin að passa upp á fjarlægðarviðmiðin. Það er þó ekki vegna neinnar veiru heldur vegna ótta við að þeir Godzilla taki upp á að slást með tilheyrandi eignatjóni. Eins og heiti myndarinnar gefur til kynna ganga þessar ráðstafanir þó ekki upp til lengdar og við tekur söguþráður þar sem reynt er eftir fremsta megni að réttlæta þetta furðulega sögusvið.

Fólk og ferlíki

Til að stilla upp enn frekar fyrir slaginn er kafað í hugmyndina sem kynnt var í forverum myndarinnar um að jörðin sé í raun og veru hol og undir niðri leynist fjölbreytt lífríki af risaskrímslum – ágætis lager til að grípa í fyrir framhaldsmyndir. Þótt hugmyndin sé auðvitað ennþá jafn ómöguleg og þegar Jules Verne slengdi henni fram í Leyndardómum Snæfellsjökuls veitir þessi framandi undirheimur myndinni kærkominn lit og ævintýralegan blæ. Rétt eins og í öllum myndum um risavaxin skrímsli er smávaxið mannfólk og amstur þess notað til að kítta í eyðurnar á milli hasarsins sem áhorfendur komu til að sjá. Hér er tveimur misskemmtilegum hópum fylgt eftir. Annars vegar eru það förunautar Kong á skemmtilegu heimshornaf lakki og hins vegar eru það uppljóstrarar sem komast á snoðir um samsæri stórfyrirtækis í óþarfa hliðarplotti. Það er þó í versta falli allt í lagi uppfyllingarefni. Þá er loksins komið að kjötinu á beinunum, áf logunum á milli Godzilla og Kong, og þar er staðið við allt sem var lofað. Hvort sem þau eru stödd á f lugmóðurskipi á rúmsjó eða í kringum neonlýsta skýjakljúfa í Hong Kong þá er stórskemmtilegt að horfa á skrímslin lúberja hvort annað. Tæknibrellurnar eru tipp topp og hljóðvinnsla er til fyrirmyndar. Þá kemur inn síðbúinn leynigestur sem kórónar þetta allt saman.

Bákn og barsmíðar

Godzilla vs. Kong skilar frá sér öllu því sem hún ætlaði sér. Séu einhver vonbrigði um sögu eða persónusköpun skrifast þau með öllu á áhorfandann. Miðað við allt sem hefur dunið á upp á síðkastið er friðþægjandi að horfa á einfalda sögu af gamalkunnum vinum að ganga í skrokkinn hvor á öðrum. Fullkomin afsökun til að hlamma sér aftur í misgóð sæti kvikmyndahúsanna og sjá eftir því að klára poppið áður en myndin byrjar.

Niðurstaða: Frábær skemmtun sem skilur vísvitandi ekki mikið eftir sig.