Ég hef verið starfandi á tónlistarsviði Hörpu frá opnun og oft stigið á stóra sviðið en aldrei framið þar neinn listgjörning, segir Arngrímur Fannar Haraldsson, Addi Fannar, í Skítamóral en hljómsveitin ætlar að telja í á morgun í sjálfum Eldborgarsalnum þó að þar verði engir áhorfendur. Þeir verða heima en tónleikunum verður sjónvarpað á RÚV 2, útvarpað á Rás 2 og streymt á Fésbókarsíðu Hörpu. Áhorfendur geta tekið þátt með myllumerkinu #skimo2020.

Í ljósi aðstæðna ætlar hljómsveitin að slá tvær flugur í einu höggi á morgun. Í fyrsta lagi ætlar hljómsveitin að máta sviðið í Eldborg og prófa hvernig nokkur af lögum hennar hljóma í salnum og í annan stað að hleypa þjóðinni í heimsókn og leyfa henni að taka þátt í þessari upphitun. Addi segir að vonandi náist að fá einhverja gesti í heimsókn til að taka með þeim lagið, sem munu þó þurfa að fylgja reglum Víðis um tvo metrana í einu og öllu. Það vill enginn valda Víði vonbrigðum.

Hljómsveitin var stofnuð á Selfossi fyrir 30 árum og ætlar að fagna tímamótunum með stórtónleikum á téðu Eldborgarsviði í Hörpu þann 16. júní. Þeir áttu að fara fram í maí en voru færðir til vegna ástandsins.

Þar verður talið í gömlu góðu sveitaballastemninguna svo Ýdalir, Miðgarður, Njálsbúð og fleiri staðir nostalgíunnar sameinast í Eldborginni. Öll vinsælustu lögin munu þar hljóma og verða spiluð nákvæmlega eins og um risa sveitaball væri að ræða. Umgjörðin verður hin glæsilegasta og ekkert til sparað við að búa til ógleymanlega kvöldstund sem enginn Skímóaðdáandi má láta fram hjá sér fara.

„Við ætlum að kýla í þetta partý til að stytta biðina og hafa ofan af fyrir fólki og okkur sjálfum. Það kemur sér vel að við erum vel æfðir því í ljósi aðstæðna er eðlilega ekki mikið búið að æfa undanfarnar vikur, við munum bara kýla á þetta. Þetta á að vera létt og skemmtilegt. Þetta kallast Föstudagspartý því þetta á að vera eins og við séum í partýi heima í stofu hjá fólki.“

Stutt er síðan Skítamórall gaf út lagið Aldrei ein sem er löðrandi í Skítamóral og Herbert bassaleikari samdi. Lagið hefur fengið glimrandi viðtökur enda segir Addi að það heyrist á fyrstu tónunum að þetta sé lag sem Skítamórall spili. „Það verður tekið á föstudag en annars verður þetta frekar hefðbundið. Þetta verður trúlega rafmagnað/órafmagnað – einhvers staðar þar á milli.

Við bregðumst við óskalögum og öðru sem fólk heima sendir okkur í gegnum myllumerkið og þó að það verði einhverjar sögur sagðar verður þetta meiri músík.“