„Ég fékk sjálfsofnæmi árið 2000 sem lýsti sér þannig að ég fékk útbrot á húðina. Í fyrstu var ég vitlaust greind og fékk árangurslausa meðhöndlun samkvæmt því, en svo fór ég til ofnæmislæknis sem kannaðist strax við einkennin, tók sýni og greindi mig með sjálfsofnæmi í húð,“ greinir Margrét frá.

Ofnæmislæknir Margrétar tjáði henni strax að um ólæknandi sjúkdóm væri að ræða, nokkuð sem myndi fylgja henni ævina út.

„Í kjölfarið bauð hann mér stera í formi krema til notkunar útvortis, sem og stera til inntöku ef útbrotin yrðu slæm. Til meðhöndlunar á sjálfsofnæmissjúkdómum eru jafnframt gefin lyf til að bæla niður ónæmiskerfið. Þá á fólk með sjálfsofnæmi á hættu að fá annars konar sjálfsofnæmi og sjálf fékk ég sjúkdóminn Hashimoto nokkrum árum síðar, en það er sjálfsofnæmi í skjaldkirtli,“ upplýsir Margrét.

Vildi finna svör í náttúrunni

Sjálfsofnæmið leiddi Margréti út í að læra grasalækningar í Danmörku en hún framleiðir eigin húð- og snyrtivörulínur; Vor og Iceland Skincare, sem er vegan.

„Ég hafði löngun til að finna náttúrulega leið til að lifa með sjúkdómnum og sem grasalæknir eygði ég von um að geta hjálpað öðrum sem upplifa sig sigraða af sjálfsofnæmi. Ég var ósátt við að sjúkdómurinn væri ólæknandi og að ekkert annað væri í boði en að taka inn stera og fara á ónæmisbælandi lyf, þar sem þau laga ekki rót vandans. Langvarandi notkun stera hefur í för með sér ýmsar aukaverkanir og slæmar afleiðingar, og ég óttaðist líka að þurfa að taka ónæmisbælandi lyf það sem eftir væri, því þeim fylgja einnig aukaverkanir,“ segir Margrét.

Heldur sjálfsofnæminu niðri

Það tók Margréti fimmtán ár að finna náttúrulega leið sem vinnur á sjálfsofnæmi.

„Ég fann áður óþekkta og náttúrulega leið til að laga sjúkdóminn, og það er sannarlega tímamótauppgötvun. Það var alls ekki auðvelt og hefur tekið ótrúlega langan tíma, eða hálfan annan áratug. Ég tek fram að ég hef ekki fundið lækningu við sjúkdómnum en ég hef fundið lausn þar sem ég held sjálfsofnæminu niðri. Í dag hefur það engin áhrif á líf mitt og mun vonandi aldrei gera það aftur. Fyrir sjálfsofnæmissjúklinga er það rosalegur sigur,“ segir Margrét, þakklát fyrir að vera laus við sjálfsofnæmið.

„Ég hef mikla trú á náttúrunni og vissi að hún hefði svörin sem ég leitaði að. Mér kom því ekki á óvart að náttúran hefði sín meðöl við sjálfsofnæmissjúkdómnum en það kom mér á óvart hvað það tók mig langan tíma að finna út úr því.“

Varanlegur árangur mögulegur

Sé leið Margrétar notuð til að vinna á sjálfsofnæmi fæst mögulega varanlegur árangur fyrir þá sem þjást af sjúkdómnum.

„Leiðin mín krefst lífsstílsbreytinga og til að ná varanlegum árangri þarf maður að halda sig við hana að mestu. Það er ekki ráðlagt að hætta strax á lyfjum heldur vinna þetta smátt og smátt í samræmi við náttúrulegu meðferðina mína, og auðvitað alltaf í samráði við lækni,“ útskýrir Margrét sem vill láta aðra í sömu sporum vita af þessum náttúrulega valkosti og að hún sé tilbúin að hjálpa.

„Ég hef sett saman meðferðarplan sem tekur viðkomandi tvö ár að fara í gegnum. Meðferðin fer ekki öll fram hjá mér, þar sem ég er ekki sérfræðingur á öllum sviðum, en þetta er allt frá mataræði, vinnu úr andlegum áföllum, að skoða hvort nánasta umhverfi sé heilsusamlegt og fleira til, því þetta er samspil margra þátta. Eins langar mig að nefna mikilvægan þátt fyrir marga með sjálfsofnæmi, en það er mygla í húsum. Það er lítil von um að ná bata ef mygla er til staðar, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum.“

Hafa má samband við Margréti í síma 865 1589 og á netfanginu maggysig@mi.is. Sjá einnig vororganics.is og icelandskincare.is.