Vinkonurnar eru á fertugsaldri og hafa farið í gegnum ýmis tískutrend, bæði góð og slæm. „Við erum duglegar að fylgjast með nýjustu trendum og finnst gaman að pæla og spá í fötum og fylgihlutum þó svo að við elskum báðar ekkert meira en að vera í joggingbuxum, mjúkum sokkum og hettupeysu,“ segir Tinna og hlær.

Kaupa ný sólgleraugu í hverri ferð

Þið hafið mikinn áhuga á sólgleraugum, hafið þið ávallt verið svona hrifnar af þeim?

„Sólgleraugu gera outfit-ið alltaf flottara. Þegar við höfum verið að ferðast saman kaupum við okkur alltaf ný sólgleraugu. Þegar við fórum til Parísar 2019 fundum við nokkur flott pör í vintage búð. París er náttúrulega þekkt hátískuborg og þar er hægt að finna mikið af smart sólgleraugum um alla borg. Það er gaman að eiga nokkur sem hægt er að leika sér með. Og leika sér síðan með hvað passar við hvaða lúkk.“

Ray Ban er ávallt í tísku

Aðspurðar segjast vinkonurnar eiga fínt safn af sólgleraugum. „Þetta er svona blanda af mörgum týpum. Við ættum kannski að vera betri í að henda en tískan fer í hringi. Við erum að sjá að sumar týpur af sólgleraugum sem við vorum með 2005 eru að koma aftur, eins og stór svört gleraugu. Það eina sem við viljum ekki að komi aftur í tísku er „low rise jeans“,“ segja Tinna og Telma.

Tinna segir að það séu ákveðin sólgleraugu sem detti aldrei úr tísku. „Ray Ban er alltaf í tísku. Aviator sólgleraugun eru klassík og fara í raun aldrei úr tísku. Ray Ban er samt duglegt að koma með nýjar týpur. Ég verð samt að viðurkenna að ég enda oft með mín Aviator á mér,“ segir Tinna. Vinkonurnar eru ávallt með puttann á púlsinum og segja að stór gleraugu séu að koma sterk inn aftur. „Síðan sér maður til að mynda vel áhrifin frá kvikmyndum eins og House of Gucci. Enda voru fötin og fylgihlutirnir æði. Maður sér líka mikið af sólgleraugum með lituðu gleri, til dæmis ljósbrún eða bleik. Það er líka mismunandi hvort fólk velur sér þunn eða þykk gleraugu. Held að málið sé bara að ekki vera hræddur við að prufa nýtt. Leyfa sér að setja mismunandi týpur á sig og hafa gaman af.“

Tinna Björt Guðjónsdóttir og Telma Haraldsdóttir 01.jpg

Kisugleraugun heilla

Þegar kemur að litavali og umgjörð er Tinna með það á hreinu hvað henni finnst fallegast. „Ég er rosa hrifin af svörtum umgjörðum. Enda eiginlega alltaf í dökkum klæðnaði,“ segir Tinna. Telma er hrifin af ólíkum formum. „Ég er hrifin af kisugleraugum. Síðan eru umgjarðir svo mismunandi á fólki. Eitthvað sem mér finnst ekki passa mér, passar vel á Tinnu,“ segir Telma og brosir.

Hvaða hönnuðir heilla ykkur helst þegar kemur að hönnun sólgleraugna?

„Í dag eru flestallir hönnuðir komnir með gleraugnalínu og eru línur oft í takt við fötin frá þeim. Til að mynda er Tom Ford ávallt stílhreinn. Marc Jacobs er með mikið af stórum sólgleraugum núna. Síðan eru 90’s-merkin að koma sterk inn eins og Tommy Hilfiger. Ég var að fá mér nýjustu Victoria Beckham-sólgleraugun og er rosa ánægð með þau. Eru töffaraleg og „feminine“ á sama tíma,“ segir Tinna.

Sólgleraugun partur af dressinu

Tinnu finnst umgjarðirnar ekki breytast mikið á milli ára. „Það er alltaf eitthvað nýtt sem kemur en tískan fer í hringi. Síðan fer þetta rosalega mikið eftir týpunni. Sumir þora, vilja prófa eitthvað nýtt og flippað meðan aðrir vilja halda sig við það sem þeir hafa notað og þekkja vel, sem er í góðu lagi. Hver og einn er með sinn stíl.“

Stöllurnar segjast alltaf velja gleraugun eftir klæðnaðinum sem þær eru í hverju sinni. „Sólgleraugun eru partur af dressinu. Enda finnum við báðar að oft vantar eitthvað og svo setur maður sólgleraugu á sig og þá smellur allt saman. Við notum báðar sólgleraugu í vetrarsólinni. Flott úlpa og smart sólgleraugu er „killer kombó“.“

Vinkonurnar segjast báðar vera mikið í „basic“ fötum sem þær síðan lyfti upp með aukahlutum, eins og sólgleraugum eða skarti. „Það er alltaf gaman og gott fyrir umhverfið að endurnýta fötin og aukahluti. Við erum þess vegna duglegar að hittast og skiptast á fötum og sólgleraugum, viljum frekar að það sé í notkun en að hlutirnir hangi inni í skáp eða séu ofan í skúffu. Ég var að setja saman outfit um daginn en í því var ég einmitt í skyrtu sem ég er búin að eiga í tíu ár og setti á mig Aviator-sólgleraugun mín sem ég keypti fyrir átta árum í New York,“ segir Tinna að lokum.

Hægt er að fylgjast með Tinnu á Instagram-reikningi hennar @‌tinnabg

Tinna Björt Guðjónsdóttir og Telma Haraldsdóttir 004.jpg

Hér má sjá þær stöllur í bleika þemanu þar sem stóru og dökku sólgleraugun setja punktinn yfir i-ið.FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Hér má sjá brot af safninu þeirra sem er heitast í dag.