Floodlights, fram­leiðslu­fyrir­tæki Hannesar Þórs Hall­dórs­sonar, fyrr­verandi lands­liðs­mark­varðar, hefur keypt kvik­mynda­réttinn á spennu­sögunni Húsið eftir Stefán Mána.

„Þetta er spennandi dæmi og ég er búinn að vera í sam­bandi við Stefán Mána frá því hann kom og sá Leyni­lögguna og við byrjuðum að ræða alls konar mögu­leika sem snúa að þessum bókum sem hann hefur skrifað,“ segir Hannes Þór sem í kjöl­farið las nokkrar bækur höfundarins og komst að þeirri niður­stöðu að rétt væri að tryggja sér réttinn á Húsinu.

Upp­brettar ermar

„Það er allt búið að vera á fullu síðan ég flutti heim 2019 og eftir vel­gengni Leyni­löggunnar eru spennandi tímar fram­undan. Á­samt Húsinu er ég tengdur nokkrum mjög á­huga­verðum verk­efnum og hug­myndin er að bretta upp ermar og koma miklu í verk næstu árin.“ segir Hannes.

Er ekki verið að pressa á þig að fylgja vin­sældum Leyni­löggu eftir með fram­halds­mynd?

„Ég er oft spurður og það er alls ekki úti­lokað. Við erum svona að fara yfir málin núna og það hafa verið alls konar hug­myndir um hvað við gerum við Leyni­löggu 2,“ segir Hannes og nefnir fram­halds­mynd, sjón­varps­þætti eða jafn­vel ein­hvern bræðing af hvoru tveggja.

„Við erum bara að sjá hvernig við getum tekið þetta á­fram,“ segir Hannes.

Fullir til­hlökkunar

„Stefán Máni skrifar mynd­rænar og kyngi­magnaðar bækur og ég var ekki búinn að lesa margar blað­síður þegar ég fann að hér væri komið efni í góða kvik­mynd,“ segir Hannes Þór.

Húsið kom út 2012 og RVK Stu­dios tryggði sér kvik­mynda­réttinn strax árið eftir en sá réttur var fallinn á tíma. „Það var bara dottið upp fyrir eða ekkert varð úr því þannig að nú ætla ég að spreyta mig.

Við erum reyndar byrjuð á hand­rits­vinnunni og erum komin að­eins á­leiðis en það er samt langur vegur fram undan en þetta er alla­vegana komið af stað og er bara mjög spennandi og ég hlakka til að takast á við þetta.

Stefán Máni er ekki síður á­nægður með sam­komu­lagið og mun fylgjast spenntur með frma­vindunni. „Ég er hrika­lega á­nægður með þennan samning. Það er tími til kominn að Hörður Gríms­son fái að njóta sín á hvíta tjaldinu og Hannes Þór er hár­réttur maður í verkið. Að­dá­endur lög­reglu­mannsins hljóta að gleðjast,,“ segir Stefán Máni.

Rann­sóknar­lög­reglu­maðurinn Hörður Gríms­son er lykil­per­sóna í höfundar­verki Stefáns Mána og Hannes Þór segist að­spurður ekki úti­loka að ef vel gangi með Húsið verði fleiri bækur um per­sónuna kvik­myndaðar.

Hörður á leik

„Stefán Máni er mjög kraft­mikill höfundur og það hefur þegar sýnt sig að verk eftir hann virka vel á hvíta tjaldinu og Svartur á leik er með vin­sælli bíó­myndum sem gerðar hafa verið hér á landi. Og Hörður Gríms­son er vin­sæl per­sóna með traustan að­dá­enda­hóp þannig að það er alls ekki úti­lokað að þetta haldi á­fram ef vel gengur.“

Spennu­þrungin á­skorun

Hannes Þór ætlar sér að sjálf­sögðu að leik­stýra Húsinu sjálfur og segir söguna fara í spíral sem fari sí­fellt dýpra ofan í dimman heim. „Hún er mjög myrk. Spennandi sál­fræði­þriller sem fer fram og til baka í tíma þannig að það er á­skorun að koma þessari bók á hvíta tjaldið en það eru spennandi frum­þættir í henni sem ég held að séu efni í góða bíó­mynd. Þannig að þetta verður bara gaman.“

Flóð­ljós utan vallar

Hannes Þór hefur undan­farið sett fullan kraft í fram­leiðslu­fyrir­tækið Floodlights og opnað nýja heima­síðu www.floodlights.is en fyrir­tækið hvílir á gömlum grunni. „Ég var alltaf með lítið fyrir­tæki utan um starf­semi mína áður en ég fór út í at­vinnu­mennsku og ef eitt­hvað datt inn á meðan ég var þar. Eftir að ég kom heim þá hefur þetta bara farið á flug,“ segir Hannes Þór sem hefur ekki síst verið virkur í aug­lýsinga­gerð og stórum her­ferðum í þeim bransa.

„Það er nóg að gera og þetta er búið að vera mjög skemmti­legt og tryggingin á þessum kvik­mynda­rétti er bara hluti af því að taka þetta lengra og þróast sem fram­leiðslu­fyrir­tæki.“