Katrín hefur stýrt Hagvangi í nær 20 ár, en það er ráðninga- og ráðgjafarfyrirtæki sem var stofnað árið 1971 og býður þjónustu við flest sem snýr að mannauðsmálum.

„Starf mitt felst í því að stjórna sókninni, rekstri og vera samstarfsfólki innan handar. Stór hluti af starfinu felst líka í samskiptum við fólk sem vill leita nýrra tækifæra og viðskiptavini fyrirtækisins, innan lands sem utan. Ég er einnig virk í starfi samtaka eins og SVÞ og SA og ýmsum nefndum,“ segir Katrín. „Fjölbreytnin er mikil og því reynir sífellt á sveigjanleika og útsjónarsemi til að mæta óvæntum aðstæðum. Velgengni fyrirtækisins hefur alltaf byggst á afar góðu samstarfsfólki, sem hefur verið mikil gæfa að vera framkvæmdastjóri fyrir.“

Gott gengi á afmælisárinu

„Síðasta ár var gott ár þrátt fyrir að ytri aðstæður hefðu mátt vera betri. Fyrirtækið átti 50 ára afmæli og við notuðum tækifærið til að fara í naflaskoðun á starfseminni, ímyndinni og vörumerkinu okkar, ásamt því að endurbæta vefinn, breyta ásýndinni og efla samfélagsmiðlana,“ segir Katrín. „Þetta gekk vel, þökk sé frábæru, framsýnu, ungu starfsfólki sem kom eins og ferskur vindur inn í starfsemina með sínar hugmyndir. Þar sannaðist að góð blanda af ólíkum styrkleikum og aldurssamsetningu er bara til bóta.

En auðvitað eru ráðningar alltaf í fyrsta sætinu hjá mér og margir hlutu frábær tækifæri í gegnum okkur, við kynntumst líka nýju efnilegu fólki sem við vinnum með áfram og þannig höldum við ótrauð áfram að mæta óskum viðskiptavinanna um besta fólkið,“ segir Katrín. „Nýja árið er mjög spennandi en ég er líka búin að stýra fyrirtækinu í nær 20 ár, svo ég spyr mig hvort þetta sé ekki bara orðið nokkuð gott. En árið fer af stað með miklum látum og það eru spennandi verkefni fram undan.“

Frábært tímabil með FKA

„Ég tók þátt í stofnun FKA árið 1999 og var beðin um að koma í ritnefnd, svo stjórn og í framhaldinu að leiða félagið sem formaður, sem var talsverð áskorun fyrir mig þar sem ég sækist ekki eftir sviðsljósinu. Þetta var hins vegar frábært tímabil,“ segir Katrín. „Það var gaman að vinna að framgangi þessa sterka félags, vera talsmaður þess og tryggja því vöxt og framtíð, ásamt því að kynnast öllum þessum stórkostlega duglegu valkyrjum, eignast einstaka vináttu og eiga þátt í að breyta hugsunarhættinum í að konur væru jafnokar karla.

Grasrótin lagði mikla áherslu á að gera konur sem höfðu stjórnað í sínum fyrirtækjum á bak við tjöldin sýnilegri. Þegar ég ákvað að hætta lagði ég svo fram tillögu á aðalfundi ásamt Margréti í Pfaff þess efnis að opna félagið fyrir konum sem voru í forsvari fyrir fyrirtæki, þó að þær væru ekki eigendur,“ segir Katrín. „Tillagan var samþykkt og ég er enn sannfærð um að það hafi orðið félaginu til heilla.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið traust til að leiða félagið á fyrstu árum þess. Það styrkti mig sem stjórnanda Hagvangs og veitti mér sönnun þess að konur væru viðurkenndar og eftirsóttar sem stjórnendur og stjórnarkonur fyrirtækja,“ segir Katrín. „Eftir formennskuna voru tengslin nánari við félagið í nokkur ár en maður þarf líka að kunna sín mörk. Ég sat í kjörnefnd í allmörg ár, tók þátt í dómnefnd félagsins, hef sótt glæsilega viðburði félagsins og fylgst með framgangi þess og vexti.“

Gaman að vera í einstökum hóp

„Ég er í senn þakklát og hrærð yfir því að FKA hafi veitt mér þessa þakkarviðurkenningu. Hún kom mér á óvart og í fyrstu fannst mér þetta óþarfi, en það er gaman að vera í hópi einstakra kvenna sem hafa allar lagt mikið til samfélagsins með sínum störfum og rutt brautina fyrir komandi kynslóðir,“ segir Katrín. „Tímarnir hafa breyst og í dag efast fáir um að konur geti gegnt stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Unga kynslóðin mun líta á það sem sjálfsagðan hlut fyrir öll kyn.

Félagið hefur verið sterkt hreyfiafl og komið að margvíslegum verkefnum sem hafa skilað atvinnulífinu auknum virðisauka. Alla tíð hefur verið leitað álits FKA á hinum ýmsu málum atvinnulífsins og rödd félagsins hefur verið sterk,“ segir Katrín. „Með opnun aðildar að félaginu, samstöðu breiðs hóps FKA félaga og verkefninu „Auður í krafti kvenna“ hafa reynslumiklir stjórnendur svo aukið vægi félagsins. Ég finn það í mínu starfi að aukinn sýnileiki FKA-kvenna hefur auðveldað yngri konum að verða eftirsóttir starfskraftar.“ ■