Stundum verða stökur til … er titillinn sem hagyrðingurinn Hjálmar Jónsson, fyrrverandi alþingismaður og dómkirkjuprestur, valdi nýútkominni bók þar sem hann hefur tekið saman ágætis sýnishorn af kveðskap sínum í gegnum tíðina.

„Vonandi í tíma frekar en ótíma,“ segir Hjálmar og hlær, þegar hann er spurður hvort stökur verði í hans tilfelli ekki til miklum mun oftar en bara stundum. „Og vonandi eiga þær við en séu ekki að trufla daglegt líf,“ heldur hann áfram og kastar fram þeirri sem bókartitillinn er sóttur til:

Andagift ég ekki skil

eða þekki.

Stundum verða stökur til

og stundum ekki.

„Ég segi líka sögurnar í kringum þessar vísur og ljóð,“ segir Hjálmar um kveðskapinn, sem mikið til hefur orðið til á góðra vina fundum og í félagsskap samstarfsfólks og annars samferðafólks í gegnum lífið.

„Stökurnar eiga það til, sem maður væntir, að fanga augnablikið. Koma með eitthvað nýtt inn í málið, nýjan vinkil og helst eitthvað hnyttið. Hún þarf að hafa innihald, vísan. Hún þarf að segja eitthvað, finnst mér, en oft er þetta bara til að kveikja bros og láta okkur líða vel.“

Hjálmar fylgir bókinni úr hlaði með útgáfuteiti í dag á Hafnartorgi, Tryggvagötu 21, milli klukkan 18 og 20 og ætla má að þar muni nokkrar lauf­léttar fá að fjúka.