Listnemanum og hinsegin aktívistanum Regn Sólmundi Evu fannst vanta dag fyrir kyn sitt og bjó hán því til nýjan hátíðisdag fyrir kynsegin fólk, kváradaginn, sem er haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í dag.
„Ég á frekar stóran vinahóp af kynsegin fólki og við vorum öll svolítið að pæla í því að það væri enginn dagur fyrir okkur. Karlar fá blóm, kökur og súkkulaði á bóndadaginn og það sama á við um konur á konudaginn. Okkur fannst við svolítið út undan og því ákvað ég að taka málin í mínar eigin hendur,“ segir Regn.
Hán segir skiptar skoðanir hafa verið á slíkum hátíðisdögum á meðal kynsegin vina sinna. Sumir hafi verið þeirrar skoðunar að þau ættu að halda upp á bæði konudag og bóndadag á meðan aðrir, Regn þar með talið, vildu halda upp á hvorugan daginn. Kváradagurinn passar þó vel inn í þessa hefð íslenskra hátíðisdaga enda fylgir hann svipuðu sniði og konudagur og bóndadagur.
„Bóndadagur er fyrsti dagur í þorra, samkvæmt gamla tímatalinu, og konudagur er fyrsti dagur í góu, í gamla tímatalinu. En ég ákvað að hafa kváradag, dag fyrir kynsegin fólk, fyrsta daginn í einmánuði. Sá dagur var einu sinni haldinn hátíðlegur sem yngissveinadagur en ég tók ekki eftir neinni hefð fyrir að halda upp á þann dag ennþá. Þannig ég ákvað bara að það væri fínt að hafa dagana alla í röð,“ segir Regn sem kveðst hafa mikinn áhuga á íslenskri menningu og þjóðfræði.
Mér finnst að fyrsti dagur í einmánuði ætti að vera þjóðlegur kváradagur, fyrst þorri byrjar á bóndadegi og góa byrjar á konudegi. Einmánuður er seinasti vetrarmánuður skv. norræna mánaðartalinu og byrjar á þriðjudegi 22. viku vetrar, sem væri 22 mars í ár.
— Regn, Skvísumálaráðherra🇺🇦 (@skvisuregn) January 21, 2022
Tekur við af kynsegindeginum
Trans Ísland hafði áður komið fram með hugmyndina að halda upp á svokallaðan kynsegindag á síðasta vetrardegi sem er einnig síðasti dagur einmánaðar. Að sögn Regn náði sá dagur hins vegar aldrei að festast í sessi, auk þess sem þá var óþarflega langur tími á milli konudags og kynsegindags.
„Þá var ekki einu sinni komið orð yfir kvár eins og er komið núna. Þannig mér fannst bara tilefni til að endurlífga þennan fögnuð á nýjum degi sem endaði á því að verða fyrsti dagur í einmánuði sem er 22. mars í dag,“ segir hán.
Regn viðraði hugmyndina fyrst á Twitter, þar sem hán er mjög virkt, og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Rúmlega 250 manns líkuðu við færsluna og 14 manns endurtístu henni. Þá hafa bæði Samtökin 78 og Trans Ísland tekið vel í hugmyndina og deildu bæði samtök kváradeginum á sínum samfélagsmiðlum í dag.

Teboð fyrir hákarlabangsa
Spurt um hvernig hán hyggist halda upp á kváradaginn og hvort komnar séu fram einhverjar sérstakar hefðir segir Regn:
„Nefnilega ekki, þetta er náttúrlega fyrsti kváradagurinn. Við ætlum nokkur að fara á kaffihús saman á eftir og hafa það kósý. Í rauninni þá verða hefðirnar eiginlega bara að verða til. Þær eru ekki komnar ennþá en þær hljóta að koma einn daginn.“
Hán segist þó hafa fengið eina nokkuð skemmtilega hugmynd sem tengist Blåhaj Ikea hákörlunum en þeir hafa notið ómældra vinsælda hjá kynsegin fólki undanfarin ár.
„Ég var eitthvað að grínast með það áðan að það ætti kannski að vera hefð að koma öll saman með hákarlabangsana okkar úr Ikea og halda teboð fyrir þá. Af því það virðist vera trend að kynsegin fólk eigi hárkalabangsa úr Ikea,“ segir Regn kímið.
Finna má nánari upplýsingar um kváradaginn á Facebook viðburðinum Kváradagurinn 2022. Að lokum vill Regn árétta að orðið kvár beygist eins og ár: Kvár – kvár – kvári – kvárs.
