Andrew J. Yang er Banda­ríkja­maður fæddur og upp­alinn í Kali­forníu. Andrew hóf píanó­nám fimm ára að aldri og stundaði há­skóla­nám í hljóð­færa­leik við há­skóla í Kali­forníu, þar á meðal doktors­nám við USC Thornton School of Music. Þegar heims­far­aldurinn skall á á­kvað Andrew að söðla um og fluttist bú­ferlum á Pat­reks­fjörð.

„Ég var í doktors­námi í USC í Los Angeles og hafði verið að spila mjög mikið. Þegar Co­vid skall á áttaði ég mig á því að allt slíkt var að loka þannig að í stað þess að bíða veiruna af mér í Kali­forníu á­kvað ég að sækja um vinnu annars staðar þar sem væru minni sam­komu­tak­markanir. Ég sótti um störf á Ís­landi og í Hong Kong og svo fékk ég vinnu á Pat­reks­firði og á­kvað að flytja þangað. Ég ætlaði mér fyrst bara að vera þar í eitt misseri, tvö í mesta lagi, en síðan á­kvað ég bara að vera hér.“

Andrew starfar sem píanó- og fiðlu­kennari við Tón­listar­skóla Vestur­byggðar sem er starf­ræktur bæði á Pat­reks­firði og Bíldu­dal. Spurður um hvort honum finnist tón­listar­lífið á Vest­fjörðum vera blóm­legt segir hann:

„Það er það klár­lega á Ísa­firði þar sem er mjög sterk tón­listar­hefð og hér á Pat­reks­firði er það klár­lega að byggjast upp. Sem dæmi þá er yfir­maður minn, skóla­stjóri tón­listar­skólans Kristín Mjöll Jakobs­dóttir, virki­lega fær fagott­leikari. Hún spilaði með Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands, lærði við Yale og spilaði í Fíl­harmóníu­sveit Hong Kong. Þannig að tón­listar­lífið er virki­lega að byggjast upp hér og börnin hér hafa mikinn á­huga á tón­list.“

Skorti lifandi tón­listar­flutning

Að sögn Andrews fékk hann hug­myndina að því að stofna Píanó­há­tíð Vest­fjarða þegar hann áttaði sig á því að á Pat­reks­fjörð vantaði al­gjör­lega lifandi tón­listar­flutning á klassískri tón­list og djass­tón­list en hann hefur sjálfur komið fram á fjöl­mörgum tón­listar­há­tíðum víða um heim, í Norður-Ameríku og Evrópu.

„Ég hugsaði með mér að það væri nokkuð á­huga­vert að á Ís­landi væri engin píanó­há­tíð, hvað þá á Vest­fjörðum. Mér fannst það hljóma eins og góð byrjun að stofna há­tíð hér og bjóða nokkrum af færustu píanó­leikurum heims, kollegum mínum og fólki sem ég þekki, hingað vestur. Það gæti bæði verið frá­bært tæki­færi fyrir fólkið sem býr hérna og sjálfa lista­mennina af því þetta er virki­lega fal­legt svæði og ég held að lista­mennirnir geti fundið mikinn inn­blástur á stað eins og Pat­reks­firði,“ segir hann.

Ungversk-bandaríski píanóleikarinn Peter Toth er meðal þeirra sem koma fram á Píanóhátíð Vestfjarða í vikunni.
Mynd/Aðsend

Heimsklassa píanó­leikarar

Píanó­há­tíðin fer fram á Tálkna­firði, Pat­reks­firði og Ísa­firði og auk Andrews koma fram tveir þekktir tón­listar­menn sem hann hefur fylgst með frá unga aldri, suður-kóreski píanó­leikarinn og tón­skáldið Myung Hwang Park og ung­verk-banda­ríski píanó­leikarinn Peter Toth.

„Ég hef þekkt Myung Hwang Park í ná­kvæm­lega tíu ár en við spiluðum saman á tón­listar­há­tíð á Spáni fyrir ára­tug. Í gegnum árin hefur hann þróast meira í áttina að því að vera tón­skáld, hann kemur enn fram sem píanó­leikari en hefur skapað sér feril sem tón­skáld í París. Ég hef pantað verk frá honum og þannig höfum við haldið sam­bandi. Hann mun frum­flytja nýtt píanó­verk, Tales Under the Snow sem ég pantaði af honum, á há­tíðinni,“ segir Andrew og bætir því við að Park sé eitt efni­legasti unga tón­skáldið í dag.

Peter Toth er ung­versk­ættaður píanó­leikari sem hlaut ný­lega banda­rískan ríkis­borgara­rétt. Þeir Andrew kynntust á tón­listar­há­tíð í Austur­ríki þegar sá síðar­nefndi var fimm­tán ára.

„Hann er um það bil tíu árum eldri en ég og hann er örugg­lega ein af á­stæðunum fyrir því að ég varð píanó­leikari. Ég man eftir því að hafa heyrt hann spila á tón­leikum þegar ég var fimm­tán ára, ég varð ein­stak­lega snortinn og það virki­lega hvatti mig til að leggja meiri metnað í að æfa mig á píanóið,“ segir Andrew og bætir því við að ferill Toth sé á miklu flugi um þessar mundir en hann mun koma fram á sínum fyrstu ein­leiks­tón­leikum í Car­negi­e Hall eftir tvo mánuði.

Suður-kóreski píanóleikarinn og tónskáldið Myung Hwang Park flytur frumsamið verk á hátíðinni.
Mynd/Aðsend

Að­gengi­leg og til­finninga­leg

Er mikill á­hugi fyrir píanó­há­tíðinni meðal Vest­firðinga?

„Ég held að það sé þegar á­kveðinn hópur fólks sem hefur á­huga á svona við­burðum. En ég held að ein af hindrunum, sem eru meira að segja til staðar í stórum borgum, sé að sumt fólk er með á­kveðnar fyrir fram gefnar hug­myndir um að klassískir tón­leikar séu eitt­hvað voða al­var­legt og leiðin­legt. Þannig að það er viss á­skorun að vekja at­hygli sam­fé­lagsins. En ég vona að í gegnum árin muni okkur takast að sýna fólki hversu að­gengi­leg þessi tón­list er og að hún er ekki til­gerðar­leg heldur mjög til­finninga­leg,“ segir Andrew.

Píanó­há­tíð Vest­fjarða fer fram 17. til 21. ágúst. Nánari upp­lýsingar má finna á heima­síðunni, iceland­piano­festi­val.com.

sumt fólk er með á­kveðnar fyrir fram gefnar hug­myndir um að klassískir tón­leikar séu eitt­hvað voða al­var­legt og leiðin­legt.