Um æðar Franks rennur bæði norrænt og suðrænt blóð. „Ég er íslenskur en á ættir að rekja til Sikileyjar, þaðan kemur Cassata-nafnið. Ég hef áhuga á ofsalega mörgu, eiginlega því að prófa sem flest. Spila á hljóðfæri, stunda ýmiss konar handverk, tala fyrir framan fólk, líkamsrækt, andlegri iðkun, matargerð og mörgu fleiru. Ég á mjög hæfileikaríka konu sem heitir Hekla, og hér um bil hæfileikalausa gamla kisu sem heitir Emma.“

Hver er saga Cassata-fjölskyldunnar?

„Þetta nafn er algengt og þekkt á Sikiley. Þjóðareftirrétturinn þar heitir cassata þannig að þetta er soldið eins og að vera Íslendingur og heita Jón Pönnukaka Með Rjóma,“ segir Frank glettinn. „Langamma og langafi fæddust bæði um 1890 í bæjunum Alia og Corleone á Sikiley og sigldu til Bandaríkjanna um 1905. Þau eignuðust fullt af börnum og afi endaði síðan hérna í stríðinu.“

Afi hans og nafni, Frank Arthur Cassata, fæddist í Brooklyn í New York árið 1911 þar sem hann ólst upp, elstur sjö systkina. Árið 1941 kom hann til landsins sem verktaki fyrir bandaríska herinn. „Hann vann fyrir herinn við að taka loftmyndir til að velja herstöðvastæði, fór svo til Grænlands og tók þátt í að reisa Thule-herstöðina þar.“

Frank segir jógað vera fullkomið og nauðsynlegt mótvægi við CrossFit, þar renni saman ákafi og mýkt. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Örlögin tóku í taumana.„Hann hélt svo alltaf sambandi við Íslendinga eftir að hann fór aftur til New York og hitti ömmu á Íslendingaskemmtun þar rétt fyrir 1950. Hann kom síðan með henni hingað og fór voða lítið aftur út.“

Lætur grappað eiga sig

Afi Franks var mikill brautryðjandi hér á landi og vann það þjóðþrifaverk að sjá til þess að landsmenn fengju tækifæri til þess að kynnast framandi grænmeti og sælkeravörum frá ættlandinu.

„Hann tók til við að kenna Íslendingum alls konar, eins og að vatnsverja múr og að það væri meira hægt að borða en kartöflur og fisk. Hann pönkaðist í innkaupastjórum verslana þangað til hann fékk loksins innflutt eggaldin og kúrbít, og stóð svo sjálfur í því að flytja inn vín, osta og olíur frá ættlandinu. Við flytjum enn þá inn Marsala-matarvín og ótrúlega góðar Barbera-ólífuolíur frá Sikiley.“

Afi Franks var við góða heilsu alla sína ævi. „Afi sagði alltaf að lykillinn að sínu langlífi væri ólífuolía og grappa. Ég drekk mikið af ólífuolíu en læt grappað eiga sig,“ segir Frank en afi hans lést í byrjun árs 2009, 97 ára gamall. Tveimur árum hafði hann missti konu sína, ömmu Franks, missir sem var honum afar þungbær.

Hefurðu komið til Sikileyjar?

„Ég skammaðist mín eiginlega alltaf aðeins fyrir að segjast vera þaðan en tala hvorki málið né hafa farið þangað. Ég fór svo loksins í brúðkaupsferð þangað árið 2017, aftur með konunni minni í sumarfrí árið 2018 og með félaga mínum að sækja þangað skútu árið 2019. Í tengslum við þessar ferðir fór ég líka á ítölskunámskeið og get núna babblað þó nokkuð.“

Hvernig var tilfinningin, fannst þér þú vera „kominn heim“ á einhvern hátt?

„Ekki heim til mín, en mér fannst ég vera kominn heim til afa. Allir gömlu karlarnir litu út eins og hann og hreyfðu sig eins og hann. Lyktin inni á öllum veitingastöðum var nákvæmlega sú sama og í eldhúsinu hjá afa. Það var mjög sérstök upplifun og fór með mig ljóslifandi langt aftur í tímann.“

Frank Arthur Blöndahl Cassata byrjaði að selja mala-talnabönd eftir að kona hans líkti stofunni við austurlenskan flóamarkað. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Þægindaramminn mölvaður

Fyrir þremur árum ákvað Frank að urðu ákveðin vatnaskil í lífi Franks í kjölfar meiðsla. „Ég var búinn að vanrækja heilsuna svo lengi að ég var farinn að finna fyrir því. Ég fór úr axarlið árið 2017 og var með viðstöðulausan verk í axlarliðnum og var flesta daga vikunnar með hausverki út af vöðvabólgu í hálsi. Ég ákvað að athuga hvort það væri hægt að gera eitthvað í þessu og skráði mig á grunnnámskeið hjá Evert í CrossFit Reykjavík í fyrra. Það var stórkostlegt og ég var búinn að mæta þangað nokkrum sinnum í viku, þangað til það var lokað. Verkurinn í öxlinni hvarf eftir tveggja mánaða þjálfun þar.“

Eftir kröftuga keyrslu undir leiðsögn Everts ákvað Frank einnig að leita í mjúkan og hlýjan faðm jóga. „Ég losnaði við verkinn í öxlinni í CrossFit en ekki vöðvabólguna. Ég byrjaði í jóga til að reyna að vinna á því og fór á grunnnámskeið hjá Tómasi í Yoga Shala. Hausverkirnir sem höfðu hrjáð mig í mörg ár fóru mjög hratt dvínandi eftir að ég fór að mæta reglulega í heitu tímana hjá Tómasi, miðvikudagstímarnir hjá honum eru einn af hápunktum vikunnar hjá mér. Mig grunar að hann hafi lúmskt gaman að því að mölva þægindarammann minn,“ segir Frank.

Þetta sé hin fullkomna blanda af mýkt og ákafa. „Annars er jóga fullkomið og nauðsynlegt mótvægi við ákafann í CrossFit. Ég gæti ekki valið annað umfram hitt, hvort tveggja er nauðsynlegt til að halda mér eins góðum og ég get verið. Jóga hefur líka hjálpað mér mikið með hugleiðslu, með því að opna og liðka mjaðmir og hné get ég setið lengur í hugleiðslu og annarri andlegri iðkun án þess að líkaminn stoppi mig.“

Hvert augnablik er glænýtt

Hið andlega og líkamlega er samofið. „Það er í raun hálfskrýtið að slíta hugleiðslu frá líkamsrækt, það er eins og að eiga flottan bíl og þrífa hann reglulega og vel að utan en aldrei að innan. Það er ekkert til nema núið; fortíðin er liðin og framtíðin er ímyndun. Samt verjum við mestum okkar tíma í að ímynda okkur framtíð, hafa áhyggjur af henni, eða sjá eftir liðinni fortíð. Ég held að það sé ómögulegt að lifa hamingjusamlegu lífi án þess að læra á núið, hvert einasta augnablik er glænýtt, það hefur aldrei gerst áður og núna er það búið og kemur aldrei aftur. En það þarf stífa þjálfun til að ná því. Búddistarnir hafa verið að segja okkur þetta í mörg þúsund ár, núna er vestræn sálfræði að fatta þetta og búddistarnir kyrja allir „loksins!“ í kór.“

Frank hefur vítt áhugasvið en hann leggur stund á búddisma þar sem svokölluð „mala-talnabönd“ eru gjarnan notuð til þess að dýpka iðkunina. „Ég er búddisti og ég nota talnabönd, einnig kallað mala, í minni daglegu iðkun. Eftir að ég fór að iðka búddismann af fullri alvöru fannst mér mikilvægt að nota band sem ég vissi að væri búið til með ásetningi, það er ekki fjöldaframleitt eða úr gerviefnum. Mér tókst bara alls ekki að finna band sem uppfyllti skilyrðin á viðráðanlegu verði þannig að ég ákvað að prófa að búa það til sjálfur,“ skýrir hann frá.

„Það kom í ljós að ég er nokkuð flinkur í því og hélt því áfram. Konan mín gerði síðan þá réttmætu athugasemd að stofan væri að verða eins og flóamarkaður í Austurlöndum og ég þurfti að taka ákvörðun um hvort ég myndi hætta eða fara að selja þau. Ég valdi síðari kostinn og setti í gang Facebook-síðuna 108 Mala Iceland eða 108mala.is og það hefur svona hér um bil dugað til að fjármagna þetta nokkuð dýra áhugamál.“

Ekkert bannað í búddisma

Frank segir vin sinn, rithöfundinn, skáldið og skipstjórann Braga Pál Sigurðarson, hafa verið mikinn örlagavald í lífi sínu. „Bragi vinur minn hefur kynnt mig fyrir flestu góðu í mínu lífi: konunni minni, hugleiðslu, búddisma, skútusiglingum og mala-böndum. Hann kenndi mér að kyrja og nota mala í kyrjun þegar við sigldum heim skútu sem hann keypti á Sikiley síðasta vor.“

Að baki talnaböndunum liggur djúpstæð speki. „Það heillar mig hvað þetta er ótrúlega gagnlegt verkfæri. Búddisminn sem ég iðka gengur að miklum hluta út á að samstilla huga, líkama og tal. Með því að kyrja möntrur (tal), telja þær með bandinu (líkami) og hvíla vitundina (hugur) á meðan í ákveðnum líkamshluta get ég æft þessa samstillingu á einfaldan hátt. Fæstir sem kaupa böndin hjá mér nota þau á þennan hátt, en það sem er svo frábært við búddismann er að ekkert er bannað. Það eru engar reglur, bara hefðir sem er gott að fara eftir ef maður vill ná þeim árangri sem er í boði. Margir eru bara að kaupa skartgripi, en mér þykir vænt um að vera hugsanlega að sá einhverjum fræjum því böndin eru búin til í kyrrðarástandi, með ásetningi, og blessuð með möntrum eftir hefðum búddismans.“

Blaðamaður spyr Frank hvort heilsuræktin hafi haft víðtækari áhrif á hans daglega líf. „Engin spurning, annars væri ég ekki að þessu. CrossFit, jóga, hugleiðsla, kyrjun og svo framvegis eru æfingar en verkefnið sem við erum að æfa okkur fyrir er lífið, allt sem gerist utan tímanna, æfinganna eða hugleiðslupúðans. Ef þetta virkaði ekki þannig þá væri þetta eins og að fara til læknis bara til að upplifa lausn sinna mála á meðan maður er á staðnum en verða svo aftur veikur þegar maður labbar út. CrossFit og jóga halda mér líkamlega góðum og í standi til að vera til á meðan búddisminn, hugleiðslan og kyrjunin gefa mér það sem ég þarf til að njóta þess að líkaminn sé í lagi.“