Víti í Vestmannaeyjum

****

Leikstjórn: Bragi Þór Hinriksson

Leikarar: Jóhann Jóhannsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Ísey Heiðarsdóttir, Arnar Harðarson, Sigurður Kári Harðarson, Baldur Björn Arnarsson, Egill Helgi Guðjónsson, Páll Steinar Guðnason, Theodór Ingi Óskarsson, Oliver Einar Nordquist, Viktor Benóný Benediktsson, Þórður Kalman Friðriksson, Daði Berg Jónsson, Gunnar Hansson, Óli Gunnar Gunnarsson, Patrik Nökkvi Pétursson, Jón Pétursson, Katrín Ynja Hrafnkelsdóttir, Robert Luu, Stefán Bogi Guðjónsson, Þórður Hólm Hálfdánarson, Lukas Emil Johansen, Björn Óli Snorrason

Handrit: Gunnar Helgason, Jóhann Ævar Grímsson

Kvikmyndin Myndin Víti í Vestmannaeyjum var frumsýnd um helgina en langt er síðan börn léku síðast aðalhlutverk í mynd. Sveppamyndirnar eru jú með fullorðna menn sem börn enda hefur verið einhver mýta að það sé ekki hægt að leikstýra börnum.

En krakkarnir í myndinni eru frábær. Öll sem eitt. Ég fór á myndina með tveimur 11 ára stelpum og þær voru glaðar og kátar að sýningu lokinni. Hentu 4,5 og 4,7 stjörnum á myndina af fimm mögulegum. Þeim fannst of mikið af augum (persónulega skildi ég það ekki) og ofbeldisatriðið var of krípí til að horfa á það. Þá fannst þeim vítakeppnin í lokin of löng.

Þeir strákar sem eru að fara til Vestmannaeyja, eða hafa efni á því, því að það kostar jú þrjú nýru og tvo handleggi að senda barnið sitt á þetta mót, geta trúlega ekki beðið eftir að stíga á sama völl og Fálkarnir spiluðu á. Þetta er þannig mynd.

Það var þéttsetinn bekkurinn í bíó og börn og fullorðnir skemmtu sér vel. Það er ekki hægt að segja annað. Siggi Sigurjóns stelur nánast senunni af krökkunum enda er hann orðinn besti kvikmyndaleikari þjóðarinnar. Karakterinn hans Sigga fær ræðuna á sig um að það sé óhollt að reykja sem endar þannig að sígarettunni er hent og nikótínplástur tekinn upp. Stórkostlegt atriði sem er strax orðið klassískt.

Þá er Jóhann Jóhannsson stórkostlegur í hlutverki pabbans. Leikur ómennið alveg óaðfinnanlega. Tuðandi mamman á hliðarlínunni er einnig skemmtileg og Auðunn Blöndal sýnir fína takta sem þjálfari.

Höfundurinn sjálfur, Gunnar Helgason, lýsir leikjunum. Persónulega hefði ég vilja fá einhvern annan. Höddi Magg eða Gummi Ben, Einar Örn eða Tómas Þór hefðu sómt sér vel sem röddin. En trúlega fór lýsingin ekki í taugarnar á nokkrum öðrum manni. Þá lét Gunnar að sjálfsögðu Þrótt vinna mótið. Það var fyrirsjáanlegt. En ég meina, ef ég væri að skrifa bíómynd þá myndi ég láta Val vinna.

Myndin tikkar trúlega í öll rétttrúnaðarbox sem til eru. Fálkarnir, aðalliðið, er skipað einum innflytjanda, einum þéttum, einum með gleraugu og hæglátri hetju. Þá er stelpa í Fylki einn besti leikmaðurinn í myndinni og sýnir oft góð tilþrif. Verst fyrir hana að mega ekki spila landsleikinn á mótinu en það er bannað – eins og frægt er orðið.

Þetta er mynd sem er ekki gerð fyrir fullorðna, hún er gerð fyrir börn og ber að taka henni þannig. Og sem barnamynd er hún geggjuð. Börnin mín gengu allavega kát og glöð út og það gerði ég líka. Þar með er markmiðinu náð. Þetta er alveg stöngin inn.