„Þetta er klárlega afrek, myndi ég segja, og kannski líka til marks um hversu fersk hver og ein sýning er í rauninni,“ segir Ólafur Ásgeirsson, listrænn stjórnandi spunahópsins Improv Ísland sem fagnar sjö ára sýningarafmæli með sinni 163. sýningu í Þjóðleikhússkjallaranum klukkan 20 í kvöld.

Ólafur bendir á að engar tvær sýningar hópsins séu eins. „Það er aldrei sama fólkið eða sama efnið og sýningin aðlagast þannig og breytist bara með tíðarandanum.“

Ólafur segir hópinn síferskan og í stöðugri endurnýjun þar sem hæfileikafólk streymi þar í gegn. Fortíð, nútíð og framtíð séu þannig þema sýningarinnar í kvöld þegar þrír hópar mætast. Þar á meðal nýliðar og fólk sem er hætt og komið í önnur og jafnvel launuð verkefni.

„Þetta er svolítið rekið á ástríðunni. Þetta er líka bara rosa góður skóli og við viljum jafnvel meina að þetta sé ákveðin menningarstofnun sem er búin að skila af sér mjög skemmtilegu fólki,“ segir Ólafur og nefnir sérstaklega síðasta áramóta­skaup en Dóra Jóhannsdóttir, leikstjóri þess og einn höfunda, var meðal stofnenda hópsins og fyrsti listræni stjórnandi hans.

Fyrrverandi meðlimirnir sem koma fram í kvöld eru Vala Kristín Eiríksdóttir, Jóhann Kristófer Stefánsson, Oddur Júlíusson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Búi Bjarmar Aðalsteinsson.

Ólafur er sjálfur einn stofnmeðlima Improv Ísland og var á sviðinu á frumsýningunni í febrúar 2016. „Vonandi verður lifir þetta bara góðu lífi þá,“ segir Ólafur þegar hann er spurður hvort hann sjái fyrir sér önnur sjö ár en bindur jafnframt vonir við að þá verði einhver annar tekinn við stöðu listræns stjórnanda.