„Við erum búin að vera heima í dag og það er búið að vera ákveðin upplifun í dag,“ segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, í myndafærslu á Instagram í gærkvöldi.

„Eins og margir vita erum við Jakob og pabbi að selja húsið okkar og það hefur verið eitthvað sameiginlegt áhugamál hjá Íslendingum í dag að gera sér rúnt í Þrymsalina því hér er búið að vera stanslaus traffík bílum að koma að skoða húsið,“ segir Gerður.

Þá sé fólk búið að labba hringinn í kringum húsið hjá henni og leggja í botnlanganum: „Mér líður eins og fisk í fiskabúri,“ segir hún og hlær og bætir við að hún hefði átt að setja Blush-bás í garðinn til að selja kynlífstæki miðað við þessa miklu umferð af fólki.

Líkt og Fréttablaðið fjallaði um á dögunum hefur Gerður sett 404 fermetra glæsivilluna við Þrymsali í Kópavogi til sölu og hyggst byggja draumahúsið í uppeldisbæ Jakob Fannars Hansen, kærasta hennar, í Hveragerði.