Sætkartöflur eru næringarríkar og mjög góðar. Hægt er að gera súpu úr þeim, sætkartöflufranskar, baka þær í ofni með hvítlauk eða hvað það sem fólki dettur í hug að gera.

Nauðsynlegt er að láta borgarana vera í ísskáp í nokkra stund áður en þeir eru steiktir en þá halda þeir sér betur. Uppskriftin er miðuð við fjóra borgara.

Það sem þarf í borgara:

1 sæt kartafla

1 dós grænar baunir

1 egg

1 msk. timían

Salt og pipar

Til að setja ofan á:

120 g geitaostur

1 rauðlaukur

4 sveppir

½ tsk. ferskur chilli-pipar

Meðlæti:

Salatblöð

4 msk. sýrður rjómi

4 hamborgarabrauð

Sætkartaflan er bökuð í ofni við 180°C í minnst 45 mínútur. Kælið. Takið börkinn og setjið kartöfluna í matvinnsluvél. Bætið við baunum, eggi, fersku timían, salti og pipar.

Formið í fjóra borgara og látið þá standa í ísskáp í hálfa klukkustund eða lengur.

Skerið rauðlauk og sveppi í sneiðar og steikið í olíu á pönnu undir meðalhita. Steikið borgarana þvínæst þar til þeir hafa fengið fallegan lit. Setjið geitaost ofan á sætkartöfluborgarana og setjið þá síðan inn í ofn sem er 200°C heitur. Látið bakast þar til osturinn mýkist. Smyrjið neðra hamborgarabrauðið með sýrðum rjóma, leggið salatblað þar yfir og loks borgarann. Ofan á hann kemur síðan laukur og sveppir ásamt smávegis af fínt skornum chilli-pipar.