Þorbjörg Þorvaldsdóttir tók við formennsku í Samtökunum ’78 í byrjun mánaðar. Hún stundar doktorsnám í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands og er tiltölulega nýflutt heim frá Hollandi þar sem hún lauk MA-prófi í málvísindum frá Leiden University.
Þorbjörg er kvænt Silju Ýri S. Leifsdóttur lífeindafræðingi. Þær eiga eina dóttur, Valbjörgu Maríu þriggja ára. Þorbjörg er fyrsti formaður Samtakanna sem er opinberlega tvíkynhneigð.
„Við Silja giftum okkur frekar ungar, ég var 24 ára og hún 23 ára gömul. Hún starfar sem lífeindafræðingur. Við búum í Garðabæ,“ segir Þorbjörg um hagi sína.
„Ég sé fyrir mér að halda áfram því góða starfi sem hefur verið í samtökunum. Ég vil byggja á þeim grunni. Samtökin hafa stækkað undanfarið,“ segir Þorbjörg og vill styðja við enn frekari vöxt samtakanna.
„Ég vil auka fræðsluna og þjónusta fleira fólk, það er mikil eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem samtökin bjóða upp á. „Fólk getur hringt á skrifstofuna og óskað eftir ráðgjöf. Þetta getur verið fólk sem er ekki komið út úr skápnum, eða fólk sem er löngu komið út úr skápnum og vill ræða við ráðgjafa um fjölskyldu- eða samskiptavandamál. Eða þarf bara á stuðningi að halda. Hælisleitendur nýta sér ráðgjöfina líka,“ segir Þorbjörg en samtökin veita þessa þjónustu frítt í gegnum samninga við hið opinbera. Sex ráðgjafar og lögfræðingur eru til taks og hitta skjólstæðinga samtakanna og ræða við þá.
Skref í rétta átt
Samtökin fagna ýmsum breytingum á hag hinsegin fólks. Nýverið var tekin til endurskoðunar blóðgjöf karlmanna sem stunda kynlíf með karlmönnum. Þó lýstu samtökin vonbrigðum með tillögur ráðgjafarnefndar um að þeir megi ekki gefa blóð fyrr en eftir tólf mánaða kynlífsbindindi.
Hún nefnir fleiri áríðandi verkefni á sínu borði sem varða hagsmuni hinsegin fólks. Tvö frumvörp liggja nú fyrir Alþingi sem varða hagsmuni hinsegin fólks. Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði og frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem tekur til þrengingar ákvæðis um hatursorðræðu.
Getur fengið að malla í kerfinu
„Frumvarp um kynrænt sjálfræði er mjög mikilvægt en það eru nokkrir gallar á því,“ segir hún. „Það er búið að fjarlægja hluta frumvarpsins sem var í drögum þess áður en það var sett inn á samráðsgáttina. Sá hluti snýr að banni á óafturkræfum aðgerðum á intersex börnum. Stjórnvöld hafa ekki haft kjark til að setja þetta á dagskrá. Ég tel að þau hafi óttast að þetta mikilvæga ákvæði yrði umdeilt. Og það var ákveðið að kalla til samráðshóp og lækna að borðinu. Sem er gott og blessað en þá hefði ég viljað að þessi inngrip yrðu bönnuð í millitíðinni.
Það er líka gagnrýnivert að það er enginn skilafrestur tilgreindur fyrir þennan samráðshóp. Þetta getur því fengið að malla í kerfinu endalaust sem er ömurlegt því það er verið að gera þessar aðgerðir á börnum núna,“ segir Þorbjörg. „Við viljum að þessum aðgerðum verði hætt. Ég fæ bara fyrir hjartað þegar ég hugsa um þetta, enda á ég þriggja ára dóttur. Að vita af börnum jafngömlum henni sem hafa farið í endurteknar aðgerðir á kynfærum til þess að þau líti út eins og fyrirframgefnar hugmyndir um það hvernig kynfæri eigi að líta út,“ segir Þorbjörg.

Tvöfaldi skápurinn
Þótt Þorbjörg gagnrýni stjórnvöld harðlega fyrir kjarkleysið segir hún mikla réttarbót í frumvarpinu fyrir transfólk. „Við fögnum því að sjálfsögðu en að sama skapi er frumvarpið vonbrigði þegar kemur að mannréttindum intersex barna. Því frumvarpið hefur verið í smíðum mjög lengi og það var haft samráð við hagsmunahópa hinsegin fólks,“ segir hún.
„Réttarbótin fyrir transfólk er mjög mikilvæg vegna þess að þau eru einn viðkvæmasti hópurinn hvað varðar líðan,“ segir Þorbjörg. „Sérstaklega transfólk sem er ekki lesið sem það kyn sem þau eru og losna aldrei við viðbrögð samfélagsins. Það er alltaf verið að spyrja þau hvaða kyni þau tilheyra. Ég nefni líka þau sem eru kynsegin og öll þau sem hafa stundum kyntjáningu sem ögrar hugmyndum samfélagsins,“ segir Þorbjörg um þá hópa innan samtakanna sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu hvað varðar fordóma og slæma líðan.
„Það sem kemur einnig í ljós í rannsóknum er að tvíkynhneigðar stelpur eru líka í miklum áhættuhópi hvað varðar slæma líðan. Það hefur oft verið talað um þennan tvöfalda skáp sem tví- og pankynhneigt fólk er í. Þau eiga það ekki víst að fá viðurkenningu innan hinsegin samfélagsins og ekki heldur innan gagnkynhneigða samfélagsins,“ segir Þorbjörg.
„Þótt ég vilji ekki alhæfa, þá finnst mér ég sjaldan hitta stráka sem eru opinberlega tvíkynhneigðir. Ég held að það sé vegna þess að þeir eru svo stimplaðir báðum megin, því miður,“ segir Þorbjörg.
Þrenging hatursorðræðu Þorbjörg undirbýr umsögn um frumvarp dómsmálaráðherra sem felur í sér þrengingu á ákvæði um hatursorðræðu. „Við erum mjög óánægð með þetta frumvarp. Ekkert tillit er tekið til sjónarmiða sem snúa að félagslegum þáttum, til að mynda til umsagnar Mannréttindaskrifstofu Íslands. Við gáfum út yfirlýsingu nýlega og lýstum okkur eindregið á móti þessu. Í rökstuðningi fyrir þrengingu á ákvæðinu voru teknir sérstaklega fyrir Hæstaréttardómar sem féllu fyrir ummæli um hinsegin fólk. Það var tekið fram að þeir myndu ekki falla undir breytt lög. Okkur finnst það lítillækkandi, svona eins og þetta hafi bara verið eitthvað væl í hinsegin fólki og dómarnir mistök sem þurfi að leiðrétta. En ég held að það sem þetta frumvarp felur í sér fari gegn því sem meirihluti fólks vill. Í frumvarpinu felst þöggun. Ekki bara fyrir hinsegin fólk heldur alla aðra minnihlutahópa. Þegar hatursorðræða fær að grassera óáreitt þá felur það í sér þöggun þeirra hópa sem um er rætt.
Fólk veigrar sér við því að taka þátt í opinberri umræðu. Tjáningarfrelsi eins er farið að skerða frelsi annars. Til þess að fá að vera hann sjálfur án þess að eiga á hættu að þola svívirðingar og árásir.“