„Í fyrsta sinn sem ég sá Tiger Woods fékk ég stjörnur í augun. Litla frænka hans, golfkonan Cheyenne Woods, er ein af mínum bestu vinkonum en við kynntumst á háskólaárunum í Norður-Karólínu. Við fórum saman til að fylgjast með Tiger á móti og Cheyenne heilsaði upp á frænda sinn. Ég talaði ekkert við hann en fékk þar að vera í hans innsta hring og fann hvernig hjartað hamaðist ótt og títt, enda er Tiger með afar sterka nærveru og allt spilar saman, hvernig hann ber sig og er stór persóna,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur og fyrst Íslendinga til að tryggja sér rétt á LPGA-mótaröðinni.

Ólafía tók örlagaríka ákvörðun þegar hún skráði sig til náms við Wake Forest-háskólann í Norður-Karólínu árið 2010.

„Já, þar var allt að gerast. Ég eignaðist mjög góða vinkonu í Cheyenne og fann ástina í örmum Þjóðverjans Thomas Bojanowski árið 2012. Hann er hlaupari í grunninn og hafði aldrei spilað golf þegar við felldum hugi saman. Ég hef kennt honum sitthvað síðan og hann er fljótur að bæta sig en fær greyið lítinn tíma til að ná framförum þar sem hann er alltaf til staðar fyrir mig, stundum kylfuberi og alltaf svo góður við mig. Ég er sannarlega heppin að eiga hann að,“ segir Ólafía um sinn heittelskaða.

Frá Wake Forest-háskóla útskrifaðist Ólafía úr hagfræði og frumkvöðlafræði árið 2014.

„Mér finnst gott og praktískt að kunna hagfræði en áhugasvið mitt stendur nær frumkvöðlafræðinni. Ég nota hana mikið í dag og á eftir að gera enn meira af því í framtíðinni.“

Eftir að Ólafía Þórunn vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í golfi fjórtán ára gömul ákvað hún að taka málin í sínar hendur og æfa enn meira upp á sitt einsdæmi eftir hefðbundnar æfingar með þjálfara. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Bronsmedalía kveikti neistann

Ólafía ólst upp í Mosfellsbæ fyrstu æviárin en flutti í Grafarholtið á unglingsaldri.

„Ég var níu ára þegar ég byrjaði í golfi. Þá var ég drifin út á golfvöll með fjölskyldunni sem var öll í golfi og við bjuggum rétt hjá Hlíðavelli. Ég man eftir fjölskyldustundum á golfvellinum þar sem þau voru öll að brillera en ég ekki. Golf tekur líka þokkalega langan tíma og ég var iðulega mjög óþolinmóð og fannst golfhringurinn ganga alltof hægt, en svo breyttist það með aukinni getu og þroska,“ segir Ólafía sem fljótlega sótti golfnámskeið fyrir börn á vegum Golfklúbbs Mosfellsbæjar.

„Fyrsta golfminningin er frá þeim námskeiðum. Við vinirnir skráðum okkur saman og haldin voru lítil golfmót til að hvetja krakkana áfram. Ég vann bronsmedalíu á einu mótinu og fannst það geggjuð upplifun, þótt keppendurnir væru bara þrír. Medalían kveikti einfaldlega í mér.“

Ólafía vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil fjórtán ára en áður lenti hún oftast í fjórða sæti.

„Orðin Íslandsmeistari tók ég málin í mínar hendur og byrjaði að æfa mig sjálf á milli æfinga. Auðvitað segjast allir krakkar ætla að verða best á Íslandi, atvinnumenn og komast á stærstu mót heimsins, en innst inni trúa þau ekki endilega á að það verði að veruleika. Ég var svolítið þar, en svo tekur maður þetta skref fyrir skref, kemst lengra og lengra og brýtur múrinn sem maður ætlaði sér yfir. Þá allt í einu verður þetta möguleiki og raunsærra en að sjá það í hillingum.“

Eftir að Ólafía Þórunn vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í golfi fjórtán ára gömul ákvað hún að taka málin í sínar hendur og æfa enn meira upp á sitt einsdæmi eftir hefðbundnar æfingar með þjálfara. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Andlegt jafnvægi mikilvægt á golfvellinum

Ólafía hefur undanfarin ár verið atvinnumaður í íþróttinni.

„Það er eitthvað heillandi við það að bæta sig og sjá hversu langt maður getur náð. Golf getur verið virkilega krefjandi, maður er sífellt að reyna að bæta sjálfan sig og í góðum hring þarf maður að vera í góðu andlegu jafnvægi og búinn að æfa líkamlegar hreyfingar til fulls.“

Spurð um sína helstu styrkleika svarar Ólafía:

„Ég er nokkuð jöfn í öllu en svo koma tímabil þar sem ég næ hámarksárangri á einstaka sviðum. Stundum er ég sérlega fær í að pútta eða þá í að slá mjög nálægt holu. Ég átti líka tímabil þar sem ég var afar sterk andlega og höndlaði fullt af hlutum sem ég furða mig á, eftir á að hyggja.“

Hún segir mestu áskorunina að keppa á stórmótum erlendis.

„Til lengdar er þau það erfiðasta við atvinnumennskuna. Þá er maður undir pressu í hverri viku, fær aldrei að slaka á og þarf alltaf að vera á tánum og 100 prósent undirbúinn. Nú þegar ég hef tekið hlé frá keppni finn ég hvað það er miklu léttara að vera ekki alltaf í pressuumhverfi, að þurfa að ganga í gegnum niðurskurði á mótum og keppa við 120 manns. Til þess þarf gífurlegan aga og góða hvíld á milli. Maður nær því ekki alveg, en ég læri.“

Ólafía segir skrýtið að eiga kvenkyns fyrirmyndir í golfinu eftir að hún fór að keppa við margar af frægustu golfkonum veraldar.

„En ég dáist að mörgum, eins og suður-kóresku golfkonunni Lydiu Ko sem ber sig aðdáunarvel á vellinum, virðist afslöppuð og í jafnvægi, og tekur því sem fyrir höndum ber af reisn. Þá finnst mér gaman fylgjast með Nelly Korda, ungri, bandarískri stelpu og flott að sjá hve hátt hún hefur farið.“

Ólafía Þórunn segist styrkleika sína á golfvellinum nokkuð jafna en svo komi tímabil þar sem hún nær hámarksárangri á einstaka sviðum, eins og því að slá mjög nálægt holu. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Fengu að kíkja í pakkann

Kórónaveiran hefur séð til þess að golfmótum heimsins hefur verið aflýst trekk í trekk. Af þeim sökum hefur Ólafía mestmegnis verið á Íslandi á tímum heimsfaraldursins.

„Ég hef ekki verið svona lengi heima í langan tíma, og þótt ég þjáist ekki af heimþrá verð ég stundum þreytt á að lifa í ferðatösku. Þegar maður er langdvölum fjær lærir maður að meta litlu hlutina, eins og að fylla á ísskápinn sinn, og mér finnst kærkomið að geta átt venjulegt líf í smá tíma,“ segir Ólafía.

Hún á von á sínu fyrsta barni í byrjun júlí.

„Ég er spennt fyrir móðurhlutverkinu og hlakka til að kynnast þessari litlu manneskju og eiga dagana með henni. Mér hefur liðið vel á meðgöngunni og við Thomas fengum að kíkja í pakkann. Ég fór í mína fyrstu skoðun í Þýskalandi og Þjóðverjar hafa annan hátt á þegar þeir skoða barnshafandi konur. Þeir taka blóðprufu þar sem kynið kemur strax fram og við fengum að vita hvers kyns var. Við höfðum vitaskuld val um það en sögðum strax bara já! og við eigum von á strák,“ segir Ólafía hamingjusöm.

„Ungbörn eru svo mikið í núinu og halda manni þar. Þetta verður vafalaust íþróttamaður, hvort sem það verður í golfi, hlaupum eða hverju sem hann vill,“ segir Ólafía og hlær.

Hún er hætt að iðka golfsveifluna því líkaminn vildi ekki vinna með henni á meðgöngunni.

„Í stað þess kenni ég golf sem er skemmtileg tilbreyting. Að halda sér í hópi þeirra bestu kostar stöðugar æfingar og marga morgna hef ég þurft að vakna klukkan fimm að og komið heim klukkan sex að kvöldi. Dagar á keppnisvikum eru líka mjög langir. Atvinnumennskan getur því verið mjög ýktur heimur en ég vil vera hluti af honum. Það er þess virði,“ segir Ólafía sem hyggst snúa aftur í atvinnumennsku eftir fæðingarorlofið.

„Ég tel mig ekki þurfa að fórna golfferlinum við það að verða móðir. Það verður vissulega meira krefjandi, en í dag er búið að gera mikið á mótaröðum til að hjálpa mæðrum í golfi að byrja fyrr og alls kyns aðstoð veitt. Ég sé helst fyrir mér að þurfa að fórna svefni en ég er ekki ein og Thomas verður okkur líka til halds og trausts.“

Ólafía Þórunn gengur nú með sitt fyrsta barn sem þau Thomas Bojanowski, kærasti hennar og barnsfaðir, fengu að vita að væri drengur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Óvæntur og kær stuðningur

Ólafía vekur hvarvetna athygli fyrir líflegt og glaðlegt fas.

„Ég er lífsglöð og hress að eðlisfari en á auðvitað líka mín móment þar sem ég er ekki jafn kát. Ég reyni að taka lífinu létt og ekki of alvarlega, þótt maður detti auðvitað í þann pólinn líka, en ég reyni að njóta augnabliksins og þess sem er. Allir lenda í því að gagnrýna sjálfan sig og það geri ég líka, en allt verður auðveldara þegar maður hefur samúð með sjálfum sér í stað þess að keppast í sífellu við að gera allt fullkomið. Maður kemst lengra á gleði og jákvæðni.“

Á barnsaldri dreymdi hana um að verða læknir, tannlæknir eða dýralæknir.

„Ég vildi hjálpa fólki og dýrum, og hef það enn að leiðarljósi. Ég vil hafa góð áhrif á fólk og veita gleði í líf þess. Ég er þakklát fyrir allan stuðning sem ég hef fengið og það getur verið rosalega gaman að vera í sviðsljósinu, en allt þarf það að vera í réttu jafnvægi. Ég nýt þess að vera góð fyrirmynd og geta notað þennan vettvang til að gera eitthvað gott,“ segir Ólafía sem vekur ætíð eftirtekt sem Íslendingur á mótum úti.

„Á fyrstu LPGA-mótaröðinni var lítið á mig sem hálfgert olnbogabarn, verandi litli aðilinn sem var einn á mótinu. Við Íslendingar vekjum alltaf áhuga og sem golfarar græðum við alltaf á því að vera sterk í erfiðum aðstæðum, eins og í kulda og trekki.“

Einn af hápunktunum á golfferli Ólafíu hingað til kemur svo kannski mörgum á óvart.

„Auðvitað stendur upp úr að komast á LPGA-mótaröðina og í gegnum öll þrjú úrtökumótin þar sem ég stóð mig vel,“ segir Ólafía en greinir líka frá annarri kærri minningu.

„Á síðasta LPGA-úrtökumótinu mættu óvænt þrjátíu Íslendingar til að styðja við bakið á mér og peppa mig áfram, fólk sem var fyrir tilviljun í fríi á Flórída. Mér þótti undurvænt um það og átti alls ekki von á neinu slíku, en á hverju einasta móti mætti minnst einn Íslendingur til að hvetja mig til dáða, hvort sem það var á Bahamaeyjum, í Taívan eða Malasíu. Eftir hringinn komu þeir til að heilsa upp á mig, sem var mjög skemmtilegt og það snart mig; samstaðan, samhugurinn og stuðningurinn.“ ■