„Þetta er búið að vera æðis­legt hjá okkur. Við lentum í Mílanó á sunnu­daginn og fórum beint í gervi­neglur,“ segir Kristín Tómas­dóttir fjöl­skyldu­með­ferðar­fræðingur.

Kristín og dóttir hennar, Ylfa Guð­laugs­dóttir, eru nú í Tórínó þar sem þær ætla að styðja Systur í fyrri undan­keppni Euro­vision-söngva­keppninnar.

Kristín segir það lengi hafa staðið til að fara í mæðgna­ferð með dóttur sinni á Euro­vision.

„Ylfa fékk ferð á keppnina í átta ára af­mælis­gjöf frá okkur for­eldrunum, þegar Daði og Gagna­magnið áttu að keppa í Hollandi. En svo kom Co­vid. Og núna, loksins, þremur árum seinna náum við að efna lof­orðið,“ segir Kristín.

Að sögn Kristínar er Ylfa gríðar­lega mikill Euro­vision-að­dáandi og segir hún það enga til­viljun að dóttir hennar elski keppnina.

„Euro­vision hefur verið vett­vangur þar sem er pláss fyrir hin­segin fólk. Ylfa fattaði það mjög snemma að þarna var eitt­hvað sem hreif hana,“ segir Kristín og bætir við að Ylfa sé trans. Þannig segir Kristín boð­skap Systra því sér­stak­lega dýr­mætan fjöl­skyldunni.

„Þessi rödd sem þær gefa trans börnum er svo ó­trú­lega mikil­væg, sér­stak­lega fyrir okkur sem lifum og hrærumst í þessum heimi alla daga. Okkur finnst frá­bært að sú um­ræða sé tekin á öðrum vett­vangi og að rödd trans barna sé haldið á lofti,“ segir Kristín.

Aðsend mynd

Þegar spjallað var við Kristínu í gær voru þær mæðgur ný­komnar heim á hótel eftir að hafa varið deginum með Systrum, sem Kristín sagði að væru mjög upp­teknar af Ylfu.

„Þær voru svo góðar við hana og tóku henni svo vel að það var ekki eðli­legt, hún fékk al­gjöra stjörnu­með­ferð,“ sagði Kristín. Fram undan væri svo sjálf undan­keppnin og þær mæðgur væru að fara að klæða sig upp á.

„Við ætlum að gera okkur mjög „glamor­ous“ fyrir kvöldið, mála okkur og gera okkur fínar. Ylfa er svo mikil drottning, hún ætlar að vera í hvítri dragt og glimmer­skóm,“ sagði Kristín.

Spennan var því í há­marki hjá þeim mæðgum eftir langa bið.

„Euro­vision er bara geggjað „show“, það er svo vel staðið að öllu og mikið lagt í þetta. Dag­skráin og skemmti­at­riðin eru svo flott og okkur finnst geggjað að söngvarinn Mika sé kynnir í kvöld,“ sagði Kristín sem var bjart­sýn á að Systur næðu að heilla Evrópu.

„Við Ylfa höldum al­gjör­lega með Systrum, þær komast pott­þétt á­fram,“ sagði Kristín.

Aðsend mynd
Aðsend mynd
Aðsend mynd