Steinunn var spurð hvort það skipti máli að umbuna starfsfólki með einhverjum hætti. Hún svarar því að mjög mikilvægt sé að leiðtogar og stjórnendur fyrirtækja þekki starfsfólkið sitt, viti hvað hver og einn upplifir sem umbun og finnst hvetjandi og sanngjarnt. „Ekki rjúka til, jafnvel með miklum tilkostnaði, og gera eitthvað sem á að vera óvænt eða skemmtilegt, sem fólk kann síðan ekki að meta. Það skapar bera svekkelsi fyrir alla. Flestir vilja finna að álit þeirra skipti máli og að vinna þeirra og framlag sé virt í stóru myndinni. Að finna tilgang með verkefnunum og fyrirhöfninni felst í að rætt sé „hvers vegna erum við að þessu?“ og finna áhrifin „hvaða máli skipti það að ég mætti, eða gerði þetta í dag?“. Eins skiptir sérlega miklu máli að upplifa að vellíðan og heilsa sé metin að verðleikum og að ekkert verk eða vandamál sé þess virði að fórna heilsunni fyrir,“ segir hún.

Gleðistundir eftir Covid

Steinunn segir að það sé enginn vafi að nauðsynlegt sé að gera eitthvað fyrir starfsfólkið núna eftir heimsfaraldur. „Eins og ávallt þá þarf að taka tillit til þess að ekki hafa allir sama smekk og því þarf að hlusta á fólkið. Suma þyrstir í fjöruga hittinga, sameiginlegt stuð og gleði, aðra í ljúfari og rólegri tækifæri til að gleðjast og eiga stund saman. Það skiptir máli fyrir flesta að eiga góðar stundir með góðum vinnufélögum,“ útskýrir Steinunn og bætir við: „Útsjónarsemi skiptir máli í bylgjunum og mun gera það áfram, einnig háð starfsemi, staðsetningu og samsetningu hópa,“ segir hún. Þegar Steinunn er spurð hvort streita sé algengari á vinnustöðum þar sem lítið er gert fyrir starfsmenn, svarar hún: „Það fer eftir því hvað við meinum með „lítið gert fyrir“. Streita er gjarnan afleiðing þess að starfsmenn séu undir of miklu álagi í of langan tíma, með of litla stjórn á aðstæðum og skorti á stuðningi. Þannig að svar mitt litast af því að fólki líður best þegar það hefur hæfilega mikið að gera, upplifir að það hafi áhrif og finnur skilning og stuðning í sínum aðstæðum. Þar sem fólk upplifir of mikið álag, of litla stjórn og skort á skilningi og stuðningi, má búast við aukinni streitu og aukinni vanlíðan, jafnvel þótt gaman sé á glæsilegu jólahlaðborði, keilukvöldi, eða jólagjöfin sé flott gjafakort í streitulosandi slökunarnudd,“ segir hún.

Góðar fyrirmyndir

„Vinnuveitendur þurfa að taka streitu og kulnunareinkenni alvarlega. Þess vegna þarf leiðtoga sem eru góðar fyrirmyndir og sýna heilsusamlegar áherslur í verki með lausnamiðuðum samtölum og ákvörðunum. Það þarf að skapa menningu þar sem er talað um vellíðan, vanlíðan, streitu og þreytu sem verkefni til að hlúa að, en ekki veikleika þeirra sem þjást.“ Steinunn segir að hjá sér eins og mörgum öðrum hafi starfsemi færst mikið í fjarfundi í kjölfar Covid. „Það opnuðust líka aukin tækifæri fyrir landsbyggðina að leita til mín í handleiðslu og stuðning. Í handleiðslunni og einkatímunum finnst mér vandamál sem tengjast streitu og kulnun vera orðin viðurkenndari enda er umræðan í þá veru. Það hefur til dæmis aukist að stjórnendur hitti mig til að fá handleiðslu og sækja sér verkfæri til að koma í veg fyrir óþarfa streitu eða kulnun sinna starfsmanna, en ekki bara að sá streitti hitti mig til að leita úrbóta. Ég finn að viðurkenning á mikilvægi þess að finna heilsusamlegar lausnir er til staðar.“

Hlutverkatogsteita

Þegar Steinunn er spurð nánar um vandamál tengd streitu og kulnun, svarar hún: „Það vantar ótrúlega oft skýrleika, samtöl og samþykki varðandi hlutverk í störfum. Hlutverkatogstreitan, eins og orðið hljómar og segir, er ótrúlega oft streituvaldur og oft hefði mátt koma í veg fyrir mikla vanlíðan og togstreitu með því að gefa sér tíma í samtal til að leysa úr togstreitu. Með samtali eykst skilningur og tilfinning um stjórn og virðingu. Þannig verð ég stundum tengiliður með því að benda á einfaldar en samt mjög áhrifaríkar lausnir sem tengjast „álagsstjórnun“ í vinnuumhverfinu, á sama tíma og ég leiðbeini fólki í sinni „streitustjórnun“ og sínu innra jafnvægi.“

Heilsa og vellíðan í forgangi

Steinunn segir að almennt séu vinnuveitendur skynsamir og geri sér grein fyrir að heilbrigt vinnuumhverfi þar sem heilsa og vellíðan er sett í forgang skili betri árangri. „Ég verð samt að viðurkenna að ég heyri færri stjórnendur en áður hreykja sér af því að vera fyrirmyndir sem mæti í vinnu þrátt fyrir kvef. Það eru færri óheilsusamlegar hetjusögur í gangi og umræðan um andlega líðan og heilsu fordómalausari. Viðhorf og venjur breytast með bylgjum, til dæmis er Covid talið hafa fengið marga til að líta meira inn á við og að því sem raunverulega skiptir máli, svo sem heilsunni, lífsstílnum og sínum nánustu,“ segir hún. „Viðhorf og venjur eru líka undir áhrifum kynslóða, en yngsta fólkið er talið líklegra til að velja starfsvettvang og vinnusamfélag sem styður við og betrumbætir þann lífsstíl og lífsgæði sem fólk kýs sér, en ekki öfugt. Kannski verður það kynslóðin sem fer síður í þrot. Enda á fólk ekki að sætta sig við vinnuskipulag sem tekur toll af heilsu þess og lífsgæðum. Það er aldrei þess virði að fórna heilsunni eða lífsgæðunum á kostnað vinnunnar, sama hversu tilgangsrík og mikilvæg vinnan er.“