Chris Har­ri­son, stjórnandi hinna gríðar­lega vin­sælu raun­veru­leika­þátta The Bachelor, hefur til­kynnt að hann ætli að hætta sem stjórnandi þeirra. Hann segist „skammast sín“ fyrir við­brögð sín við myndum sem birtar hafa verið af einum af þátt­tak­endum í nýjustu þátta­röðinni, Rachael Kirkconnell. Þar sést hún klædd í búning frá þeim tíma er þræla­hald var enn við lýði í Suður­ríkjunum Banda­ríkjanna, í veislu í anda þess tíma. Veislan var haldin árið 2018.

Í við­tali við Rachel Lindsay, fyrr­verandi Bacher­lorette, í þættinum Extra varði Har­ri­son myndina af Kirkconnell og sagði hana ekki eiga skilið að vera dæmda fyrir að hafa farið í veisluna og klætt sig upp með þessum hætti. „Við þurfum að sýna smá vægð, smá skilning, smá sam­úð,“ sagði Har­ri­son að­spurður um málið í við­talinu. Hann hefur stýrt þáttunum síðan 2002.

„Ég hef séð hluti á netinu, þennan dómara, kvið­dómara og böðuls hlut þar sem fólk er að rífa líf þessarar stúlku í sig og velta sér upp úr hlutum eins og for­eldrum hennar, hvernig for­eldrar hennar kjósa. Það er afar ógn­vekjandi að fylgjast með þessu. Ég hef ekki enn heyrt Rachel tjá sig um þetta. Þangað til að ég sé þessa konu fá tæki­færi til að tjá sig, hver er ég þá til að tala um nokkuð af þessu? Ég sá mynd af henni úr veislu fyrir fimm árum og það er allt og sumt,“ sagði Har­ri­son meðal annars í við­talinu.

Í yfir­­­lýsingu í gær sagði Har­ri­­son að „fá­viska mín var skað­­leg“ og hann skammaðist sín fyrir „van­þekkingu“ sína á banda­rískri sögu og hvernig slíkar veislur líkt og Kirkconnell tók þátt í væru birtingar­­mynd kyn­þátta­­for­­dóma. Hann mun ekki stýra loka­þætti nú­verandi þátta­raðar The Bachelor, sem sú 25. í röðinni.

Matt James, nú­verandi Bachelor, er fyrsti svarti maðurinn til að gegna því hlut­verki og hefur honum og Kirkconnell komið vel saman. Talið er að hún komi sterk­lega til greina sem val James á fram­tíðar­eigin­konu, sem er mark­mið þáttanna. Kirkconnell hefur einnig verið sökuð um að líka við færslur á sam­fé­lags­miðlum sem ýta undir kyn­þátta­for­dóma, til að mynda sumar sem sýna fána Suður­ríkjanna úr banda­rísku borgara­styrj­öldinni, sem snerist að stórum hluta um að binda endi á þræla­hald í Suður­ríkjunum.

Matt James, núverandi Bachelor.
Mynd/ABC

Margir hafa komið Har­ri­­son til varnar og segja of langt gengið í að refsa fólki fyrir um­­­mæli er varða mál­efni kyn­þátta í Banda­­ríkjunum. Einnig hafa margir fyrr­verandi þátt­tak­endur í The Bachelor gagn­rýnt Har­ri­­son og lýst von­brigðum sínum með um­­­mæli hans. Sjálfur sagði James sagði á föstu­­daginn að hann væri þakk­látur Lindsay fyrir að varpa ljósi á mikil­­vægi þess að í þáttunum væri sem fjöl­breyttastur hópur kepp­enda og að þeir sem að þeim stæðu öxluðu á­byrgð.

Sjálf hefur Kirkconnell beðist af­­sökunar á fram­­ferði sínu og að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún hefði haft rangt við. Hún segir að þekkingar­­leysi sitt hafa verið merki um kyn­þátta­­for­­dóma.