Óhætt er að segja að suðurkóresku þættirnir Squid Game hafi slegið í gegn síðan þeir voru frumsýndir á Netflix fyrir skömmu. Þættirnir segja frá hópi fólks sem glímir við ýmis vandamál í einkalífinu og þarf að leysa þrautir í þeirri von að vinna dágóða fjárhæð.

Einn af aðalleikurum þáttanna er hinn 77 ára gamli O Yeong-su og má segja að líf hans hafi tekið stakkaskiptum eftir að þættirnir voru sýndir. O Yeong-su fer með hlutverk Leikmanns 001 í þáttunum og er hann einn eftirminnilegasti karakterinn.

Mail Online vísar í viðtal við O Yeong-su í suðurkóreska sjónvarpinu á dögunum þar sem hann lýsti áreitinu sem hann hefur fundið fyrir að undanförnu.

O Yeong-su er skyndilega orðinn einn eftirsóttasti leikari Suður-Kóreu og hafa fjölmörg fyrirtæki reynt að fá hann til að leika í auglýsingum. Var áreitið orðið svo mikið að hann fékk dóttur sína til að taka á móti skilaboðum og svara þeim.

„Lífið hefur breyst talsvert,“ sagði hann og bætti við að nú þekki flestir hann úti á götu, til dæmis þegar hann heimsækir kaffihús. „Það er líka erfitt að vera frægur.“

O Yeong-su er langt því frá að stíga sín fyrstu skref í leiklist því hann hefur starfað sem leikari frá árinu 1963. Þrátt fyrir ýmis stór hlutverk í gegnum tíðina er hann fyrst núna að verða heimsþekktur, 77 ára að aldri. Hann tekur frægðinni með stóískri ró og segist vera sáttur á þeim stað sem hann er á núna. Hann sé ekki með stór plön um eitt eða neitt.

Talið er að rúmlega 140 milljónir áskrifenda Netflix hafi horft á þættina fyrsta mánuðinn. Þættirnir komu út 17. september og slógu strax í gegn.