„Við eignuðum okkur þetta í sveitarstjórnarkosningunum 2018 og Dóra Björt tók upp hlaðvarpsþátt þar sem hún útskýrði þetta hugtak og síðan varð þetta reglulegur þáttur sem heitir Pírapinn,“ segir Róbert Douglas, upplýsingastjóri Pírata.
„Síðan máluðum við PírApann í barnaherbergið og nú er hann hluti af flokknum.“

Eftir því sem næst verður komist má rekja uppruna PírApans til innhringjenda á Útvarpi Sögu sem mun hafa orðið tíðrætt um til dæmis „helvítis pírapana“ með frekar gegnsærri vísun til þess að greindarvísitala þeirra væri í lægri kantinum.
PírApinn stökk síðast fram í fullu fjöri á kosningavöku Pírata í síðasta mánuði, þegar frambjóðendur og stuðningsfólk stimplaði hann meðal annars á handleggi sína með tímabundnu vatnstattúi og teygðu þannig brandarann eins og tyggjóið sem slíkar augnabliksmyndir hafa löngum fylgt.