Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir, einn stofnenda Rebutia, segir að fyrsta beta-útgáfan af forritinu sé nú aðgengileg á netinu svo allir sem vilja geta skráð sig inn og prófað forritið á vefsíðunni therebutia.com.

„Við gerum ítarlega greiningu á líkamsbyggingu þinni, en við gerum það á skemmtilegan og einfaldan hátt fyrir notandann. Þú þarft því ekki að standa með málband og mæla þig,“ segir Heiðrún.

„Markmið okkar er að spara fólki tíma og líka að spara fólki pening. Forritið auðveldar þér að velja réttan fatnað og þú situr ekki uppi með föt sem passa þér ekki. Í staðinn fyrir að þú sért að fletta í gegnum fullt af vefsíðum á netinu til að reyna að finna eitthvað sem hentar þér, þá finnur kerfið okkar föt fyrir þig sem henta þinni líkamsbyggingu.“

Smám saman lærir forritið á smekk notandans.

Heiðrún segir að Rebutia sé nú þegar komið með samninga við yfir 15 vörumerki og ný merki bætast við á hverjum degi eins og til dæmis Dorothy Perkins, Ted Baker, Uniglo, Reformation og Michael Kors en verið er að vinna í að bæta við Calvin Klein. „Við stefnum að því að vera með samninga við 50 vörumerki í lok árs.“

Notandinn greindur frá toppi til táar

Forritið virkar þannig að notandi fyllir út prófíl. Það sýnir notandanum teikningar af líkamanum og við hverja teikningu er skýringartexti sem hjálpar honum að velja rétt. „Við förum í gegnum greiningu á þér alveg frá toppi til táar. En þú þarft ekkert að vita nákvæmar mælingar á þér, skýringartextinn hjálpar þér að velja hvað við á. Margt er til dæmis mjög augljóst eins og hvort þú sért með langan háls eða stuttan háls, þá mælir kerfið til dæmis með því að mæla með fingrunum til að velja rétt,“ segir Heiðrún.

Kerfið er búið að vera í þróun í mörg ár og er búið að fara í gegnum innanhússprófanir í fyrirtækinu. „Það hefur tekið langan tíma að þróa algóritmann sem er bak við kerfið og núna erum við að vinna í því að byggja gervigreind ofan á kerfið svo það verði sjálfvirkara,“ segir Heiðrún.

Forritið greinir líkamsgerð þína frá toppi til táar.

Hún segir framtíðarplönin vera að hver notandi hafi sinn eigin avatar, það er tölvuteiknaða persónu sem er byggð á líkamsgreiningu notandans. Notandinn mun þá geta séð hvernig flíkin lítur út á persónunni. „En fókusinn hjá okkur núna er að bæta við litgreiningu og fatasamsetningu,“ segir Heiðrún.

„Við sjáum ekki notandann þannig að við erum að læra á hann. Það er eins og Amazon og fleiri gera, þeir færa þér meira af því sem þú ert búin að vera að kaupa. En það sem þú ert búin að vera að kaupa er kannski fatnaður sem hentar þér ekki.

Það sem við gerum er að greina þig ítarlega og færa þér flíkur sem passa þér, svo fylgjumst við með hvað stílistinn velur fyrir þig og hvað þér líkar við af því. Þú getur sem sagt valið hvað þér finnst flott, við greinum það og færum þér meira af slíkum fatnaði,“ segir Heiðrún.