Athafnakonan Ellen Ragnars Sverrisdóttir hefur nú sett á laggirnar markaðsvettvang, RAGNARS, þar sem fólk getur notið aðstoðar stílista. Fyrst um sinn er vefsíðan stíluð inn á breskan markað, en það er á döfinni að bjóða líka upp á þjónustu íslenskra stílista.

Ný og endurbætt síða

„Við settum upp endurbætta síðu í september. Mig langaði að gera svona þjónustu aðgengilegri og gagnsærri. Mér finnst að þetta eigi að vera eðlilegt skref í því að byggja sig upp, bara svona eins og þegar fólk fer til einkaþjálfara til dæmis. Þá er ég alls ekki að gera lítið úr einkaþjálfurum. En það er oft þannig að fólk er búið að vera mikið í ræktinni og taka til í lífi sínu, en vanrækir alveg þessa hlið. Svo skilur fólk kannski ekki af hverju sjálfstraustið er ekki að aukast,“ segir Ellen.

Hún segir það stundum gleymast hjá fólki sem er að bæta líf sitt að það hjálpi mikið að vera smekklega til fara og líta vel út.

„Fólk sem stendur kannski í skilnaði eða er einfaldlega að reyna að koma sér í betra form, fattar stundum ekki af hverju líðanin er ekki að batna. Mér finnst það vera mikilvægt skref í því að auka sjálfstraustið að fara til stílista.“

Síðan sé því nokkurs konar markaðstorg fyrir stílista. RAGNARS sé milliliðurinn milli stílistans og viðskiptavinarins.

„Þetta er alveg svakalega stór markaður og það er mikill áhugi fyrir hendi. Mikið af stjörnum á samfélagsmiðlum er svo stílistar líka. Þannig að mín hugmynd var að gera þetta miklu aðgengilegra.“

Sniðugt fyrir upptekið fólk

Hún segir persónulega stílista geta hjálpað manni við svo margt, til dæmis að pakka fyrir ferðalög eða aðstoða við fataval fyrir mikilvæga fundi. En fyrst og fremst sé þetta liður í að hjálpa fólki að líða betur með sjálft sig.

„Ég ferðaðist mikið vegna vinnu á sínum tíma og þekki þetta því ágætlega. Þá fann ég fyrir því hvað svona þjónusta væri sniðug og fór að skoða hvað stæði til boða í þessum málum.“

Hún segir þeirra helsta markhóp vera upptekið fólk sem getur oft ekki gefið sér tíma í að sinna þessu sjálft.

„Svo er þetta vinsælt hjá mæðrum sem eru kannski að snúa aftur til vinnu eftir fæðingarorlofið. Líkaminn hefur kannski breyst og þær langar mikið að auka sjálfstraustið.“

Stefna síðar á íslenskan markað

Margir þekktir stílistar í Bretlandi bjóða fram þjónustu sína á síðunni.

„Fólk hérlendis getur nýtt þjónustuna í gegnum netið, þar sem það getur fengið ráð frá stílistunum. En ég er nú þegar í samskiptum við marga flottustu stílistana hérna heima, þannig að stefnan er að bjóða upp á það þegar á líður.“

Hún segir stílistana mjög ánægða með fyrirkomulagið en fyrirtækið varð að hafna 170 stílistum.

„Við bjóðum upp á þjónustu frá um fjörutíu stílistum á síðunni í dag og margir af þeim hafa unnið með heimsþekktum stjörnum á borð við Gordon Ramsay og David Beckham.“

Hægt er að nálgast þjónustuna á RAGNARS.co