Meðal þess sem járnsmiðir fást við eru stigahandrið sem yfirleitt setja mjög mikinn svip hvort sem er á heimili eða fyrirtæki. Tískan er margbreytileg þegar kemur að stigahandriðum og margar útfærslur hafa litið dagsins ljós í áratugi. Stiginn getur verið þungamiðja heimilisins þar sem hann er oft hluti af stóru rými, til dæmis opnum stofum. Í sumum húsum er stiginn það fyrsta sem ber fyrir augu gesta þannig að fólk vill að þeir séu glæsilegir.

Hér er járnhandrið með skreytingu við tréstiga. Glæsilegt saman.

Sumir vilja hafa gamaldags stigahandrið á meðan aðrir velja nýmóðins útlit. Sum stigahandrið hafa gríðarmikinn sjarma og íburð á meðan léttleiki er yfir öðrum. Undanfarið hefur mikið borið á gleri við stiga en alltaf þarf járn til að halda því uppi. Val á efnum og frágangur stigans hafa mikil áhrif. Vanda þarf til verksins hvort sem notað er tré, gler, steypa, akrýl, stál eða hvað annað.

Létt stigahandrið sem passar vel við heimilið.

Málmsmíði hefur þekkst á Íslandi frá örófi alda þrátt fyrir að hvorki nytjamálmar né steinkol séu hér í jörðu. Landsmönnum tókst engu að síður að smíða talsvert af nauðsynlegustu áhöldum úr málmi ásamt fögrum listgripum. Íslendingar hafa átt marga frábæra járnsmiði í gegnum aldirnar. Í gömlum húsum má oft sjá afar falleg stigahandrið, oft útskorin úr tré en einnig úr járni. Hér á myndunum má sjá nokkrar hugmyndir að stigahandriðum þar sem járn eða stál er notað.

Glæsilegur bogadreginn stigi með íburðarmiklu handriði, rétt eins og í gömlum Hollywood-kvikmyndum.
Stál og gler við parketklæddan stiga getur skapað létt og fallegt umhverfi.
Stigahandrið eins og oft má sjá í húsum hér á landi sem byggð voru á sjötta áratugnum.