Uppreisn Jóns Arasonar er bók eftir Ásgeir Jónsson, rithöfund og seðlabankastjóra. Í bókinni rekur hann lífshlaup síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi fyrir siðaskipti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ásgeir skrifar um Jón Arason en hann ritstýrði og skrifaði inngang að Ljóðmælum Jóns Arasonar sem komu út árið 2006.

Ásgeir er fyrst spurður um áhuga sinn á Jóni Arasyni Hólabiskupi sem tekinn var af lífi árið 1550 ásamt tveimur sonum sínum. „Ég er alinn upp á Hólum og hef alltaf haft mikinn áhuga á sögu og andi Jóns svífur yfir staðnum. Jón er mjög áhugaverður, bæði sem skáld og persóna. Hann er sonur einstæðrar móður og komst snemma til frama innan kaþólsku kirkjunnar. Hann er sterkur karakter og mikill karakter. Hann var með járnharðan vilja og ekkert virtist geta stöðvað hann lengi vel. Jafnframt mikill fjölskyldumaður og raunar er vart hægt að finna litríkari hóp en börn hans og tengdafólk. Jón virtist einnig fæddur leiðtogi – öllum ber saman um að hann hafi verið ákaflega skemmtilegur og haldið bestu veislur sem um gat. Hann orti einnig skemmtileg danskvæði fyrri hluta ævinnar sem virðast hafa slegið í gegn hjá alþýðu manna. Seinni hluta ævinnar orti hann hins vegar eldheit trúarkvæði sem meðal annars eru talin hafa verið Hallgrími Péturssyni fyrirmynd en hann var sem kunnugt er alinn upp á Hólum.“

Gegn konungi

Ásgeir bendir á að Jón hafi verið jafnaldri Marteins Lúters – fæddur 1484. „Svo þversagnakennt sem það kann að hljóma, þá virðist Jón hafa aðhyllst sumar af hugmyndum siðaskiptamanna – svo sem að boða trúna á móðurmáli fólksins. Hann flutti prentsmiðju til landsins árið 1530 og lét meðal annars prenta þýðingar úr Biblíunni. En allar bækur þessarar prentsmiðju eru nú glataðar. Hún er hins vegar þekktust fyrir það sem hún þrykkti fyrir annan biskup á Hólum – Guðbrand Þorláksson.

Svo er þessi tími einnig merkilegur út frá efnahagslegu sjónarmiði. Margar þjóðir stunduðu hér verslun og fiskveiðar. Danir voru veikir fyrir – áttu ekki flota né heldur gátu staðist samkeppni við Þjóðverja eða Englendinga um verslun. Raunar stjórnuðu Þjóðverjar Íslandi í umboði konungs allt fram til 1541 og landsmenn hafa örugglega orðið mjög lítið varir við Dani fram til þess. Kirkjan hér heyrði undir erkibiskupsstólinn í Niðarósi og ungir menn fóru til náms í Hamborg eða London. Kaupmannahöfn var bara útkjálki. Þessi staða fór mjög í taugarnar á Dönum og þeir voru staðráðnir í því að komast að því gnægtaborði sem þeir töldu Ísland vera.

Stytta af Jóni Arasyni biskupi var reist á Munkaþverá. Mynd/Wikipedia

Kristján III. Danakonungur var uppalinn í Slésvík Holstein og tróð síðan siðaskiptunum upp á Dani með því að brjóta landið undir sig með aðstoð þýskra málaliða. Sömu aðferðafræði var beitt í Noregi og svo loks á Íslandi. Skálholtsbiskupsdæmi var síðan látið samþykkja lúterstrú á Alþingi 1541 frammi fyrir þýskum spjótaskógi. Jón Arason náði samkomulagi við Danakonung um að fá að vera í friði og sat um sjö ára skeið sem sá eini kaþólski í Norður-Evrópu í góðri sátt við konung – allt þar til hann sjálfur raskaði friðnum. Hann var því ekki í varnarbaráttu – heldur í sókn.

Eftir lát Gissurar Einarssonar árið 1548 ákvað hann að gera uppreisn gegn konungi og reið með vopnaðan flokk í Skálholt til þess að láta kjósa þar kaþólskan biskup. Á þeim tíma voru Danir og Hamborgarmenn komnir í vopnuð átök en konungur hafði selt landið á leigu til góðborgara Kaupmannahafnar og þeir ætluðu með góðu eða illu að ná Íslandsversluninni undir sig. Jón biskup og Hamborgarmenn urðu því sjálfkrafa bandamenn gegn konungi. Ég held að Jón hafi ætlað að ganga svo langt að taka landið undir Þýskalandskeisara, Karl V. sem var kaþólskur.“

Varð að deyja

Hlutir fóru svo á annan veg en Jón ætlaði og hann var dæmdur til dauða ásamt tveimur sona sinna, Ara og Birni. „Danir hjuggu ekki kaþólska menn vegna trúar þeirra. Menn voru hálshöggnir fyrir landráð. Í dómnum sem Kristján skrifari, umboðsmaður Danakonungs, las yfir Jóni áður en hann var höggvinn var hann ekki sakaður um trúvillu. Hann vildi ekki hlýða konungi og ætlaði að taka landið undan honum og varð því að deyja.“

Vanmat Jóns

En var raunhæft hjá Jóni að gera uppreisn gegn Danakonungi? „Það styrkti stöðu hans að Hamborgarmenn studdu hann. Kristján III Danakonungur var aukinheldur alinn upp í hinu þýska hertogadæmi Holstein og sat undir miklu ámæli í Danmörku fyrir að vera of vilhallur Þjóðverjum – sem raunar höfðu leitt hann til valda í upphafi. Hansakaupmenn höfðu lánað honum gríðarlegar fjárhæðir til þess að ráða til sín þýskan málaher og þær skuldir urðu síðan gríðarlegur baggi á danska ríkinu. Raunar réðst konungur ekki gegn Jóni biskupi fyrr en hann hafði samið við Hamborgarmenn um að hætta að styðja uppreisn hans – en þá gegn því að hann drægi til baka umboð Kaupmannahafnar til þess að stunda Íslandsverslun. Þannig fengu Hamborgarar sitt fram.

Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað Danir voru í veikri stöðu gagnvart Þjóðverjum á þessum tíma. Refskák Hólabiskups gat því alls ekki talist vonlaus á sínum tíma. Jón hefur sennilega talið að Danakonungur vildi ekki árekstra við Þjóðverja þar sem þeir voru helstu stuðningsmenn hans.

Ég held hins vegar að Jón hafi vanmetið hversu gríðarlega máli það skipti konung að halda ríkinu saman. Hann virtist halda að hann hefði það sterka stöðu að hann gæti spilað með í hinni evrópsku valdapólitík. Þar fóru hlutir hins vegar á annan hátt en hann hafði reiknað með,“ segir Ásgeir.