Fyrir um tveimur vikum fór dular­full síða að nafninu Sterkar skoðanir að ryðja sér til rúms á Insta­gram en þar mátti lesa harð­orða full­yrðingar á borð við „Þeir sem segja „ég vill“ ættu að endur­taka annan bekk.“

Í dag eru fylgj­endur síðunnar orðnir nærri níu þúsund og bætist dag­lega fjöldi fólks í hópinn. Frétta­blaðið náði tali af stofn­enda hópsins, Hrafn­hildi Össurar­dóttur, sem er að eigin sögn skoðana­glöð að eðlis­fari.

Gríðar­lega sterkar skoðanir frá blautu barns­beini

„Ég hef alltaf haft gríðar­lega sterkar skoðanir á öllu, fjöl­skyldu og vinum bæði til mikillar mæðu og skemmtunar,“ segir Hrafn­hildur í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún á­kvað setja síðuna Sterkar skoðanir í loftið til að fá út­rás fyrir skoðunum sínum og kanna hvort aðrir væru á sama máli.

„Að stofna Insta­gram reikning fyrir sterkar skoðanir telst varla há­punktur al­vörunnar svo mér fannst bara um að gera að prófa. Einnig spilar inn í þetta allt saman að ég er í miðjum masters­rit­gerðar skrifum og sár­þráði eitt­hvað til að dreifa at­hyglinni, hvort sem það var nú gáfu­leg á­kvörðun eða ekki,“ segir Hrafn­hildur kímin.

Mynd/Instagram

Léttar en sterkar skoðanir fá pláss

Skoðanirnar sem birtar eru á síðunni eiga það sam­eigin­legt að vera í léttari kantinum að mati Hrafn­hildar. Mikið beri á skoðunum um matar­venjur og orða­notkun. „Einnig hef ég sett inn skoðanir sem tengjast hjarð­hegðuninni sem ein­kennir ís­lenskt sam­fé­lag, nokkuð sem ég hef ó­beit á í ljósi ó­endan­legrar þarfar minnar fyrir að vera ekki alveg eins og næsti maður.“

Hægt er að senda inn sterka skoðun og ef hún þykir lík­leg til vin­sælda fær hún birtingu. Það er þó blátt bann við pólitík og virðingar­leysi á síðunni. „Mark­miðið er fyrst og fremst að koma fólki til að brosa, ræða hlutina á skemmti­legan hátt og segja það sem margir kannski hugsa en segja ekki upp­hátt.“

Appið hrundi undir þunga nýrra fylgj­enda

Við­brögð við síðunni hafa farið fram úr björtustu væntingum stofnandans. „Upp­haf­lega bjóst ég nú ekki við því að fleiri en nokkrir vinir og kunningjar myndu „followa“ þar sem ég var ekkert sér­stak­lega að aug­lýsa síðuna. En svo bara sprakk þetta, í orðsins fyllstu merkingu, því Insta­gram appið mitt krassaði þegar fylgj­endurnir byrjuðu að raðast inn.“

Út­lit síðunnar gæti spilað þar inn en Hrafn­hildur hannaði færslur síðunnar þannig að fýsi­legt væri að deila skoðunum á sögu-svæði Insta­gram. Sú hefur svo sannar­lega reynst vera raunin og ljóst að fylgj­endur síðunnar liggja ekki á skoðunum sínum.

Ekki allir sam­mála

Það liggur fyrir að ekki séu allir sam­mála öllu sem kemur fram á síðunni enda ó­fáar um­deildar skoðanir á ferðinni. „Til dæmis virðist fólk annað hvort elska kórían­der eða ekki, eða þá að því finnst sjálf­sagt mál að pissa smá í eigin sturtu eða ekki.“ Flestir eru þó á sama máli um að nýta eigi kosninga­rétt og að bannað sé að keyra hægt á vinstri ak­grein.

Nokkrar skoðanir hafa þó stuðað fylgj­endur. „Sem dæmi má nefna að ekki allir voru sam­mála því að þeir sem ekki borði sveppi séu annað­hvort sjö ára eða með ó­af­sakan­legt vesen,“ segir Hrafn­hildur hlægjandi.

Sjálf er hún ekki alltaf sam­mála því sem hún birtir. „Ég hef birt skoðanir sem ég er ó­sam­mála en bara af því að mér finnst þær fyndnar.“ Það komi þó fyrir að að­sendar skoðanir séu um­orðaðar þannig að þær séu meira í takt við hennar skoðanir. „Yfir­leitt skrifa ég líka undir hverja að­senda skoðun sem ég birti hvort ég sé sam­mála eða ekki, aðal­lega svo fólk haldi ekki að ég sé nógu rugluð til að finnast paprika ógeð eða eitt­hvað svo­leiðis.“

Gleymdi að segja kærastanum frá

Til að byrja með sagði Hrafn­hildur engum frá því að hún væri heilinn á bak við sterkar skoðanir þar sem hún vildi ekki fá fylgj­endur í gegnum kunnings­skap.

„Ég gleymdi meira að segja að til­kynna kærastanum mínum að þetta væri ég og hann var vægast sagt hissa þegar hann komst að þessu! Það var í gær.“ Ein­hverjum hafi þó grunað hver stæði að baki síðunnar þegar birt var færsla þar sem fram kom að hvítt súkku­laði væri frá hel­víti. „Ég hef aldrei verið feimin við að lýsa yfir hatri mínu á þessu óæti.“ Eftir frá­bært við­brögð á­kvað Hrafn­hildur þó að ó­hætt væri að koma úr felum og standa að baki sterkra skoðana.

Yfir­leitt sé ég strax hvort að skoðun er lík­leg til að verða vin­sæl meðal fólks. Það er alveg magnað hvað fólk getur haft fyndnar skoðanir. Ég hef aftur á móti þurft að vísa mörgum skoðunum frá þar sem þær brjóta gegn reglum síðunnar. Oftar en ekki um­orða ég líka að­sendar skoðanir til að gera þær stutt­orðar og setja þær í skemmti­legan búning sem er lík­legur til vin­sælda.

Auð­velt að vera með sterka skoðun

Hrafn­hildur segir það aldrei há sér að vera með sterka skoðun. „Þvert á móti, það er mjög gaman að hafa sterkar skoðanir og alveg ó­trú­legt hversu fyndnar um­ræður geta myndast út frá sterkum skoðunum.“ Allra skemmti­legast er að vera með skoðun á því sem telst al­mennt ó­merki­legt.

„Ég er sann­færð um að allir hafi sterkar skoðanir á ein­hverju, hvort sem það er á­legg á pizzu, skemmtana­gildi Euro­vision eða eitt­hvað mun al­var­legra og sam­fé­lags­lega mikil­vægara en það.“ Það sé ljóst af magni skila­boða að það er engin skortur á sterkum skoðunum í dag. „Sem mér þykir mjög já­kvætt.“

Hjartan­lega sam­mála vin­sælustu skoðuninni

Upp­á­halds skoðun Hrafn­hildar sem birst hefur á síðunni hingað til er: Það er eðli­legt að segja ó­vart bakarí í staðinn fyrir apó­tek. „Systir mín er hörð á þessu en ég skil ekki neitt og hef aldrei ruglast á þessum orðum.“ Færslan sló þó ræki­lega í gegn. „Það er greini­legt að þessi orð ruglast saman í hausnum á fólki og mér finnst það fá­rán­lega skemmti­legt.“

Vin­sælasta skoðun á síðunni er ekki um­deild en þar kemur fram að fólk sem keyrir hægt á vinstri ak­rein megi skila öku­skír­teininu sínu. „Þetta er að­send skoðun sem ég er hjartan­lega sam­mála, enda þekkt fyrir að vera ó­þolin­móð í um­ferðinni. Og ég er greini­lega ekki sú eina.“

Mikilvægt að hafa skoðun

Sterkar skoðanir eru mikil­vægar í dag að mati Hrafn­hildar sem bendir á að það sé lær­dóms­ríkt að gera sér grein fyrir að ekki allir séu sam­mála. „Það er líka mikil­vægt að læra mikil­vægi þess að þora að segja sína skoðun óháð því hvað öðrum finnst.“

Þar að auki sé hin mesta skemmtun að mynda sér sterka skoðun. „Það er sjúk­lega fyndið að fylgjast með fólki í bullandi heitum sam­ræðum um hvað sé sið­laust að setja í bragðaref og hvað ekki.“