Jeanine Cohen heldur þriðju einkasýningu sína í Hverfisgalleríi sem ber titilinn Innra rými. Cohen er belgískur listamaður sem fæst við lita- og formrannsóknir.

Listakonan sýnir þrívíð veggverk. „Þetta eru nýleg verk, frá árinu 2021, og þar nota ég við sem uppistöðu,“ segir Cohen. „Verkin eru sjálfstæðar einingar en eiga í samtali í sýningarrýminu. Þau tengjast, ekki síst í gegnum litina, sömu litirnir koma þar fyrir. Litapallettan hefur alltaf skipt mig miklu máli og ég er hrifin af björtum sjálflýsandi litum sem gera að verkum að áhorfandinn upplifir verkin sjónrænt mjög sterk. Þegar ég vinn verkin nota ég lög af málningu, stundum þrjú eða fjögur, en stundum líka bara eitt eða tvö. Viðurinn var skorinn fyrir mig en ég sé sjálf um að skrúfa einstaka hluta saman.“

Eigin form

Hún tekur fram að verk hennar myndist oft ekki sérlega vel. „Þau verða oft óskýr,“ segir hún. Blaðamaður getur tekið undir það að betra er að standa frammi fyrir verkum hennar en að skoða myndir af þeim. Verkin eru stílhrein og áhrifamikil í einfaldleika sínum.

Í sýningartexta segir Birta Guðjónsdóttir meðal annars: „Verk hennar eru sjálfstæðar einingar en eiga jafnframt í samtali hvert við annað í sýningarrýminu. Þau eru fáguð yfirlitum, öguð og formin sterk og einföld. Breidd litapallettu hennar nær frá ómeðhöndluðum viðnum yfir í frumliti og neon. Litirnir endurkastast af hvítum veggjunum og innan verksins sjálfs myndast eins konar eigin heimur þar sem ljós- og skuggaspil skapa sín eigin form.“

Vinir á Íslandi

Þetta er í þriðja sinn sem Cohen sýnir verk sín í Hverfisgalleríi, en hún sýndi fyrst hér á landi í i8. „Ég er stórhrifin af Íslandi og hef ferðast um landið. Hér á ég góða vini, listamenn, galleríseigendur og listaverkasafnara sem er alltaf gaman að hitta,“ segir hún.

Jeanine Cohen er fædd árið 1951 í Brussel í Belgíu þar sem hún býr og starfar. Verk hennar hafa verið sýnd í söfnum og galleríum víða í Evrópu, bæði á einkasýningum og samsýningum. Verk hennar eru í eigu stofnana, fyrirtækja og einkaaðila víða um heim auk þess sem hún hefur skapað staðbundin verk fyrir ýmis söfn, stofnanir og einkaaðila.

Sýningin i Hverfisgalleríi stendur til 2. júlí.

Verkin eru stílhrein og áhrifamikil í einfaldleika sínum.