Lengi hefur verið vitað að söngur og ljóðmál eru besta leiðin til þess að kenna börnum þá list að tala og lesa.

Kynslóð fram af kynslóð hafa Íslendingar numið tungumálið í gegnum söng og kveðskap, því það er einhver galdur í „stuðlanna þrískiptu grein“ sem virðist valda því að hugurinn nemur betur það sem boðað er í bundnu máli.

Þannig eru ljóðmál og söngur örvun fyrir málþroska barna og hjálpa vafalaust einnig til við lestrarnám þeirra.

Sá er einmitt tilgangurinn með útgáfu bókarinnar Stafavísur sem nýlega kom út. Hugmyndin að tilurð hennar mun einmitt hafa sprottið upp af umræðum um „tengsl ljóð- og sönglistar við hljóðrænt form tungumálsins“ eins og fram kemur í formálsorðum.

Í bókinni eru vísur og ljóð eftir ýmsa höfunda um bókstafina og eiginleika þeirra. Hver vísa kennir einn staf. Bókin er í fallegu, litríku broti, skemmtilega myndskreytt og ljóðunum fylgja einnig gítargrip og nótnaskrift.

Öllu er þessu haganlega fyrir komið þannig að hver opna er tileinkuð einum staf, ljóðinu sem honum tengist og laginu sem syngja má við það, ásamt fallegri myndskreytingu sem undirstrikar enn frekar líkindin við hljóð eða form bókstafsins. Bókin er þess vegna afar handhæg og efni hennar aðgengilegt í alla staði.

Bókin er gefin út með styrk Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Ingunnar Wernersdóttur. Dr. Ragnar Ingi Aðalsteinsson, bragfræðingur og Steinunn Torfadóttir, lektor í lestrarfræði, ritstýrðu og skrifa formála og inngang. Höfundar eru ýmis skáld og þekktir hagyrðingar sem fengu frjálsar hendur við efnistökin svo fremi að vísurnar væru rétt gerðar samkvæmt hefðum og bragfræði.

Í formála segir að vísnasmíðin hafi svo verið vegin og metin með tilliti til bragreglna og kennslufræði.

Augljóst er að metnaður hefur verið lagður í alla gerð bókarinnar, jafnt inntak sem útlit. Vísurnar sjálfar eru „gullnáma orðaforða og málskilnings sem síast inn í vitund barna gegnum sönginn“ eins og bent er á í inngangsorðum.

Sumar eru við þekkt lög, við aðrar hafa verið samin ný lög. Að því verki komu Gylfi Garðarsson sem einnig sá um að skrifa nóturnar og hljómsetja lögin, Bjarni Hafþór Helgason og Björgvin Þ. Valdimarsson tónskáld – valinn maður í hverju rúmi.

Einn vísnahöfundanna, Sigurður Sigurðarson, samdi bæði ljóð og lag.

Á baksíðu segir að bókin sé gerð í því augnamiðið að „örva lestraráhuga barna og létta þeim fyrstu skrefin á brautinni“. Raunar gerir bókin fleirum léttara fyrir en börnunum, því að ef farið er inn á youtube.com og sleginn inn titill bókarinnar má heyra lögin sungin af Margréti Eir og leikin af Pétri Valgarð Péturssyni á gítar og Þóri Úlfarssyni á píanó.

Er því auðvelt fyrir kennara og uppalendur að nálgast sönglögin ef nótnaskrift nægir ekki.

„Lengi býr að fyrstu gerð“ segir máltækið. Þess vegna er þakkarvert þegar metnaður og alúð eru lögð við það sem yngstu kynslóðinni stendur til boða. Hér hefur fjöldi listamanna lagt sitt af mörkum til að skapa nýtt og spennandi efni. Afraksturinn ber þess ódulin merki, því hér hefur vel tekist til.