Í kvöld er gigg eru tónlistarþættir með Ingólfi Þórissyni, eða Ingó Veðurguði, en þeir eru öll föstudagskvöld á Stöð 2. Þættirnir hófu göngu sína í síðustu viku við góðar viðtökur. Ingó fær gestina til að syngja með sér perlur úr íslenskri tónlistarsögu og inni á milli eru skemmtilegar sögur sem gestirnir deila með áhorfendum.

Davíð og Sverrir Bergmann spjalla léttir saman við upptökur á þáttunum. Fréttablaðið/Valli

„Þetta er búið að vera alveg ótrúlega skemmtilegt ferli,“ segir Ingó. Hann segir að lagt hafi verið upp með að gestunum liði vel og þægilegt spjall gæti myndast. „Okkur langaði að skapa þessa baksviðsstemningu, ekki hafa þetta of þvingað. Þátturinn í kvöld er frábær. Það er svo magnað að fá til sín svona fagfólk eins og Siggu og Palla. Þau nánast tóku yfir þáttarstjórnun sem mér fannst eiginlega æðislegt.“

Björn Kristinsson, eða Bjössi sax, leikur listir sínar á saxófóninn. Fréttablaðið/Valli
Stemningin var greinilega gríðarlega góð í myndverinu þegar upptökur stóðu yfir. Fréttablaðið/Valli
Þættirnir heita eftir einu vinsælasta lagi ársins sem er einmitt með Ingó, Í kvöld er gigg. Fréttablaðið/Valli
Í kvöld mæta Páll Óskar og Sigga Beinteins. Ingó segir þáttinn alveg einstaklega góðan. Mynd/Tinna Vibeka
Ingó segir að pælingin hafi verið sú að skapa þægilegt andrúmsloft þar sem tónlistarmenn gætu náð góðu spjalli. Mynd/Tinna Vibeka
Áhorfendur höfðu flestir gaman af og allir fylgdust spenntir með úr salnum. Fréttablaðið/Valli