Þróttaramömmurnar Berglind Ingvarsdóttir og Tobba Ólafsdóttir bættu í fyrra úr að því er virtist alþjóðlegum skorti á jóladagatölum með myndum af knattspyrnukonum, með því einfaldlega að hanna, prenta og gefa út dagatal með myndaspjöldum af 24 knattspyrnukonum í fremstu röð á heimsvísu.

Þær bæta um betur fyrir þessi jól með nýrri og endurbættri útgáfu þar sem Stelpunum okkar er teflt fram í samstarfi við KSÍ.

„Hugmyndin er runnin undan rifjum Berglindar,“ segir Tobba, en eftir að Berglind hafði leitað árangurslaust að fótbolta­stelpudagatali fyrir dóttur sína, ákváðu þær að bæta úr þessum tilfinnanlega skorti á fótboltaspjöldum með kvenfyrirmyndum.

Jóladagatalið í ár samanstendur af 24 númeruðum umslögum og 48 fótboltaspjöldum sem skarta bæði myndum og fróðleik um íslenskar landsliðkonur fyrr og nú.

Töluðu við KSÍ

Berglind og Tobba gáfu dagatalið með alþjóðlegu kvenfyrirmyndunum í fyrra út til styrktar fótbolta­stelpum í 4. og 5. flokki Þróttar sem er hverfisliðið þeirra, „stórveldið í dalnum“, en dætur þeirra æfa og spila með liðinu.

„Þetta vakti gífurlega mikla lukku í fyrra og við fundum fyrir miklu þakklæti frá báðum kynjum. Við fengum fyrirspurnir um það hvort við myndum ekki láta framleiða spjöld með íslenskum konum líka, þar sem það flæðir allt í karlaspjöldunum,“ segir Tobba og hlær.

Nú verður hægt að telja niður til jóla með landsliðshetjunum Fanndísi, Söndru og Margréti Láru.
Myndir/Aðsendar

Hún bætir við að þær hafi ákveðið að setja sig í samband við KSÍ með þessa hugmynd um að gefa aðdáendum tækifæri til þess að kynnast stelpunum í landsliðinu betur, þar sem þær stefndu á EM í Englandi sem síðar tókst.

„Hugmyndinni var tekið svona líka vel að KSÍ óskaði eftir að við myndum útfæra dagatalið og koma þessum flottu kvenfyrirmyndum áfram,“ segir Tobba, en Sara Björk Gunnarsdóttir var eini fulltrúi Íslands í síðasta dagatali og var þá að sjálfsögðu númer 24.

Stelpur í sókn

Tobba segir tilganginn með myndaspjöldum að sýna ungum stúlkum hvað fótboltakonurnar hafa verið að gera. „Að þær geta farið í fæðingarorlof, dottið út í eitt eða tvö ár, og komið aftur til baka og stundað sína íþrótt sem mæður.“

Tobba bendir á að það vilji einmitt þannig til að Sara Björk er í þessari stöðu akkúrat núna þegar dagatalið kemur út.

„Sem var skemmtileg tilviljun,“ bætir Tobba við og áréttar að enginn annar framleiði slík kvennaspjöld hér landi.Þróttaramömmurnar tvær fagna breyttri umræðu um konur í íþróttum og segja töluverða breytingu hafa orðið á þessum sex árum sem dætur þeirra hafa æft fótbolta.

Jóladagatalið hefur verið uppfært síðan í fyrra og nú eru íslenskar knattspyrnukonur í öllum stöðum.

„Hlutfallið er alltaf að jafnast út í umræðunni, í fréttum og á fleiri stöðum.“Kátar landsliðskonur„Við færðum Söndru Sigurðardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Öglu Maríu Albertsdóttur og Fanndísi Friðriksdóttur spjöldin í vikunni og höfum fengið afar fallegar og góðar viðtökur frá fleiri landsliðskonum,“ segir Tobba glöð.

Þegar Berglind leitaði til Tobbu með hugmynd sína í fyrra voru heimatökin hæg, þar sem hún og Sæþór, eiginmaður hennar, reka listagalleríið og prentverkstæðið Farva í Þróttarahverfinu, og þar er hægt að nálgast dagatalið. Bæði í versluninni í Álfheimum og á farvi.is.