Ein vinsælasta kvikmynd í íslenskri kvikmyndasögu, Stella Í orlofi verður endurfrumsýnd í endurbættri útgáfu.

Aðstandendur myndarinnar hafa tekið hana í gegn með því að hreinsa upp hljóð og mynd til að endurbæta gæðin.

Að þessu tilefni ætlar Smárabíó að endurfrumsýna myndina í þessum nýju gæðum.

Þann 11. júní verður sérstök partý forsýning á myndinni þar sem hitað verður upp með Stellu í orlofi barsvari í anddyri bíósins og veglegir vinningar verða í boði.

Myndin verður svo endurfrumsýnd daginn eftir, þann 12. júní.

Selt verður í sæti og tryggt að það sé eitt sæti á milli hvers hóps. Einnig eru sæti í boði sem tryggja tveggja metra á milli hópa.

Klassísk gamanmynd

Stella í orlofi kom út árið 1986 og var einhver vinsælasta gamanmynd íslenskrar kvikmyndasögu, enda smekkfull af kostulegum fulltrúum íslensku þjóðarsálarinnar í gamanleik. Edda Björgvinsdóttir, Þórhallur Sigurðsson betur þekktur sem Laddi og Gestur Einar Jónsson fara með aðalhlutverk í þessari stórskemmtilegu og klassísku grínmynd.

Leikkonan góðkunna, Edda Björgvinsdóttir, fer með hlutverk Stellu.
Eyþór Árnason