Hraðsoðnar sakamálasögur huldupennans Stellu Blómkvist um samnefndan svartleðraðan stjörnulögmanninn og hörkutólið Stellu Blómkvist hafa notið mikilla vinsælda enda hefur ráðgátan um hver höfundurinn sé í raun og veru ögrað og heillað lesendur í rúma tvo áratugi.

Vinsældirnar fylgdu Stellu yfir í sjónvarp 2017 þegar Sjónvarp Símans hóf sýningar á glæpaþáttaröð sem byggði á bókunum og sló öll aðsóknarmet efnisveitunnar. Þættirnir hafa einnig meðal annars verið sýndir í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar um Evrópu og á Viaplay á Norðurlöndunum.

Kafað dýpra

Í þáttunum holdgerðist töffarinn Stella í leikkonunni Heiðu Reed sem endurtekur nú rulluna í nýrri seríu sem byrjar hjá Símanum í dag og tekur upp þráðinn tveimur árum eftir að morðið í Stjórnarráðinu fékk farsælan endi.

„Þetta var bara frábært,“ segir Heiða um að fá að bregða sér í leðurgalla Stellu á ný. „Það eru náttúrlega um það bil fjögur ár síðan við gerðum fyrstu seríu en það gaf okkur bara tækifæri til að virkilega hugsa um hvernig við gætum uppfært og bætt Stellu og ég held að við höfum gert það og gert þetta ennþá skemmtilegra ef það er hægt,“ segir leikkonan og hlær.

Ráðgátan um hver reynist í raun og veru bak við höfundarnafn Stellu er eitthvert best varðveitta leyndarmál íslenskra bókmennta en Heiða segist þó ekki hafa reynt að misnota aðstöðu sína, sem Stella, til þess að þvinga sannleikann um hana fram.

Með leyndarmálið í gröfina

„Ég held að það væri bara geðveikt óþægilegt að vita hver þetta er og held ég vilji síður vita það núna en áður. Kannski þekki ég hann. Kannski hef ég hitt hann. En ég held að þetta sé hann,“ segir Heiða sem veðjar á að karlmaður leynist að baki Stellu. „En ég veit að nokkrir einstaklingar sem koma að þáttunum vita þetta og þeir segja ekki neitt. Þeir fara með þetta í gröfina held ég.“

Stella Blómkvist hefur ekki sagt sitt síðasta og leysir nýtt sakamál á meðan hún slurkar Nonna í sig.

Heiða segist aðspurð ekkert hafa lesið eftir Stellu áður en hún tók að sér hlutverk hennar. „Ég vissi alveg af henni og svo las ég nokkrar bækur eftir að ég tók hlutverkið enda byggja þættirnir að einhverju leyti á sögunum í sumum bókunum. Þær eru bara stórskemmtilegar. Mjög spennandi.“

Heiða áréttar síðan mikilvægi þess að fólk geri greinarmun á bókum og sjónvarpi. „Sjónvarpið er annar miðill með annan sögustíl og eins og gengur tökum við það besta og bætum síðan við.“

Nonni og sígó

Heiða segir þættina vitaskuld innblásna af harðsoðnum stíl bókanna sem séu ekta „pulp fiction“ eða afþreyingarbókmenntir. „Bækurnar gáfu okkur í raun leyfi til þess að leika okkur rosalega mikið með efnið og vera ekkert að taka okkur of alvarlega. Svona spennuþættir geta svo oft verið svaka alvarlegir. Stella er ekki beint þannig,“ segir Heiða og bætir við að þættirnir glotti í raun svolítið út í annað yfir sjálfum sér.

Heiða segist lítið fylgjast með því hvernig þættirnir leggist í einlæga og trygga aðdáendur bókanna en eina óánægjuröddin sem hún hefur orði vör við er frá leynihöfundinum sjálfum.

Þegar Stella er komin í leðrið má fólk vara að vara sig. Prúðupiltarnir sem aðrir.
Mynd/Aðsend

„Ég held að ég hafi heyrt að höfundurinn sjálfur sé ekki hrifinn af því að Stella væri að reykja,“ segir Heiða og hlær. „En því miður heldur hún því áfram,“ heldur leikkonan áfram og lætur sig hafa það að púa sígarettur þegar hún er í karakter.

„Það er eiginlega ekkert nikótín í sígarettunum en það er bara einhver svona fílingur í þessu fyrir hana. Stella er nautnaseggur og sígaretturnar eru hluti af því. Þá fara retturnar vitaskuld ákaflega vel með Johnnie Walker-viskíinu sem Stella hefur verið í svo löngu og nánu sambandi við að hún kallar drykkinn aldrei annað en Nonna.

Skemmtilega ýkt

Hún er náttúrlega bara mjög skemmtileg en við uppfærðum hana aðeins í nútímanum og ýktum hana kannski aðeins. Þótt hún hafi sko alveg verið nett ýkt,“ segir Heiða og glottir og bætir aðspurð við að hún sé alls ekki búin að fá sig fullsadda af persónunni.

„Mér þykir rosa vænt um hana og þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt sköpunarferli hjá öllum sem koma að Stellu Blómkvist og við sjáum bara til hvað gerist en hér er ekkert útilokað,“ segir hún um líkurnar á því að hún taki þriðja snúninginn með Stellu.