Um­boðs­maðurinn og tón­listar­konan Steinunn Camilla, sem var meðal annars þekkt fyrir að vera í hljóm­sveitinni Nylon, ræðir við Einar Bárða í hlað­varps­þáttunum Öll trixin um ferilinn og Nylon ævin­týrið en Einar og Steinunn unnu lengi vel saman, bæði hér heima og í Bret­landi.

Vin­sældir Nylon voru miklar, þar sem þær gáfu meðal annars út tvö lög í London og náðu inn á topp 30 á breska vin­sældar­listanum, auk þess sem þær gáfu út þrjár plötur á Ís­landi, gerðu þátta­röð á Skjá einum, gerðu DVD-disk og bók.

„Við Steinunn fengum okkur kaffi um daginn og spjölluðum um Nylon ævin­týrið og árin sem tóku svo við hjá þeim í Bandaríkjunum. Það var mjög skemmti­leg upp­rifjun fyrir okkur bæði held ég,“ segir Einar um spjallið og vísaði þar með til þess þegar stelpurnar héldu til Los Angeles árið 2008.

Vinsældir Nylon voru miklar.

Voru mættar til að tala um músík

Steinunn fór þar á­samt Nylon systrum sínum, Ölmu og Klöru, og gengu þær undir nafninu Charlies. Það gekk þó ekki hnökra­laust fyrir sig þar sem bransinn í Los Angeles var veru­lega karl­lægur. Að­spurð um hvort ein­hver hafi farið yfir strikið segir Steinunn að það hafi hjálpað að þær voru þrjár en þær hafi engu að síður lent í „til­boðum.“

„Við lentum í dinnerum þar sem voru lagðar hendur á bak og læri og alveg ó­þarfa hlutir en við vorum þrjár og ég þakka fyrir það, við lentum aldrei illa í því en ég játa það að við fengum fá­rán­leg til­boð,“ segir Steinunn. „En við vorum mættar til að tala um músík og ef það var ekki það sem var að gerast þá þökkuðum við bara fyrir matinn og sögðum bæ.“

Í dag er Steinunn einn eftir­sóttasti um­boðs­maður landsins en hún rekur Iceland Sync um­boðs­skrif­stofuna á­samt sam­starfs­konu sinni, Kristínu Soffíu. Saman sinna þær erindum nokkurra vin­sælustu popp­stjarna landsins, til að mynda Bríet, Auður, Krassa Sig, Cell7 og Klöru Elías.

Steinunn ræðir starfið og margt fleira í þættinum Öll Trixin sem hægt er að nálgast á öllum hlað­varps­veitum.

Nylon stúlkurnar ásamt Einari.