Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar fal­leg minningar­orð um eiginmann sinn sem hefði orðið 45 ára í dag. Hún segir hann hafa verið allra manna skemmtilegastur og fyndnastur. Greinin birtist í Kvennablaðinu í dag.

Stefán Karl lést þann 21. ágúst 2018 eftir illvíga baráttu við krabbamein.

„Það eru tæp tvö ár síðan hann dó, en ekki líður sá dagur að ég hugsi ekki til hans, oftar en ekki er það vegna einhvers hversdagslegs sem ég veit að hann hefði fundið ástæðu til að snúa upp í grenjandi fyndið grínatriði."

Hún segist hafa lært mikið af illvígum veikindum hans.

„Í  baráttu Stefáns og töpuðu orrustu var ekkert réttlæti, bara vægðarlaus grimmdin sjálf, en mér hefur líka skilist að það mótlæti sem ég tókst á við með honum kenndi mér svo ótal margt og hefur gert mér kleift að takast á við hlutina óttalaust og af margfalt meiri kjarki en áður. Gjafir er að finna í undarlegustu aðstæðum."

Steinunn og Stefán áttu saman tvö börn, þau Júlíu og Þorstein.

„Ég sé honum líka bregða fyrir daglega í börnunum okkar Júlíu og Steina. Þau hafa þroskast ótrúlega hratt á undanförnum tveimur árum, eins og títt er um börn og margir eiginleikar Stefáns koma æ skýrar í ljós í fari þeirra. Bæði eru þau músíkölsk og lagviss og alætur á tónlist eins og Stefán."

Hún segir að Stefán hafi kennt sér að áhyggjur og úrtölur væru tímasóun.

„Ekkert verður aftur samt. Aldrei. En ég get glaðst yfir svo mörgu og lífið er mér í raun fjarska gott. Maður visnar bara ef maður þrjóskast ekki áfram með draumana og hugsjónirnar í fanginu. Ég veit að margir minnast Stefáns í dag og það er von. Hann gat verið allra manna skemmtilegastur. Fáið ykkur súkkulaðiköku!"