„Það er varla hægt að hugsa sér útkomu bókar án hófs, blessaðar séu afléttingar kóftakmarkana,“ segir Steinunn sem er nýkomin til landsins frá Frakklandi. „Dásamlegt að halda upp á Systu megin með vinum og frændum,“ heldur hún áfram og lætur þess getið að viðstaddir virðist hafa þolað vel við þótt dagskráin hafi ekki verið neitt sérstaklega stutt.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Systu megin er lýst sem hárbeittri og óvenjulegri sögu um utangarðsfólk sem fær í henni bæði rödd og ásýnd og Steinunn segir mikið fjör í því að fá fyrstu viðbrögð beint í æð. „Og eðalleikkonurnar Ragnheiður Steindórs og Sólveig Guðmunds fóru á kostum sem Systa og illvíga mamman hennar.“

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Útgefandi Steinunnar, Egill Örn Jóhannsson hjá Forlaginu, er að vonum hæstánægður með að geta haldið almennileg útgáfuhóf að nýju. „Það er afskaplega ánægjulegt að geta haldið útgáfuboð og upplestra á nýjan leik, en meira og minna öll slík boð féllu niður á síðasta ári. Við viljum svo gjarnan hitta lesendur bókanna sem höfundarnir skrifa og útgefendurnir gefa út.“