Sjón­varps­maðurinn, leikarinn og grín­istinn Steindi Jr. hefur heldur betur í nógu að snúast en kappinn deilir léttri færslu á Twitter síðunni sinni í dag. Þar segist hann hafa stein­gleymt að fara með Þorsta bílinn svo­kallaða í skoðun og í kjöl­farið verið stöðvaður af lög­reglu­þjóni, sem hann bauð hlut­verk í myndinni.

„Það er svo mikið álag að gera sjón­varps­þætti og bíó­mynd á sama tíma að ég stein­gleymdi að fara með Þorsta bílinn i skoðun. Ég bauð þessum góða lög­reglu­þjóni hlut­verk i myndinni gegn því að sektin yrði lækkuð, hann tók því ekki og bætti á sektina fyrir að reyna múta lög­reglu­þjóni,“ skrifar Steindi á léttu nótunum.

Kappinn vinnur nú að tökum á kvik­mynd sinni Þorsta en það vakti heldur betur at­hygli í lok ágúst þegar Frétta­blaðið sagði frá því að Steindi hefði aug­lýst eftir leik­stjóra fyrir myndina á Face­book síðunni sinni. Sagðist hann við til­efnið vonast til þess að myndin yrði frum­sýnd þann 25. októ­ber næst­komandi. Virðist það ætla að ganga eftir en stikla fyrir myndina er nú sýnd í kvik­mynda­húsum.