Ásgeir Þór Jónsson, rekstrarstjóri nýjasta veitingastaðarins á Kársnesi – Mossley, segir það alltaf hafa verið planið að opna veitingastað á Borgarholtsbraut á móti Kópavogslaug í stað bakarísins vinsæla Brauðkaups. Ásgeir Þór og félagar hans eru allir uppaldir á Kársnesi og Ásgeir segir hugsjónina hafa ráðið för.

„Okkur hefur frá upphafi langað til þess að gera þetta hús að sannkölluðu samkomuhúsi Kársnesinga. Ég ólst hérna upp í hverfinu og flutti svo aftur hingað til baka fyrir þremur árum. Þá var bara bensínstöð hérna og ekkert annað,“ segir Ásgeir.

Sjálfur hefur hann komið víða við, búið erlendis og rekið fjölda veitingahúsa og skemmtistaða hér á landi eins og Prikið, Laundromat og Jamie‘s. „Þannig að við strákarnir vorum alveg sammála um það að það vantaði einhverja stemningu hérna í hverfið og nú viljum við láta á það reyna með þessum nýja stað, að bjóða upp á líf og fjör hér í götunni.“

Stálu úr sjoppunni

Ásgeir og félagar eiga allir sameiginlegt að eiga sínar æskuminningar úr húsinu, sem áður hýsti sjoppu um árabil.

„Við vorum alltaf þarna í þessari sjoppu sem krakkar að ræna hlutum og skemmta okkur. Það er virkilega skrítið að eiga þennan stað allt í einu núna og þetta hús, enda mikið búinn að vera að hanga í þessari sjoppu þegar maður var krakki. Fyrsti kossinn og allur pakkinn var tekinn þarna,“ segir Ásgeir hlæjandi.

Þeir félagar stóðust ekki mátið þegar húsið fór á sölu og keyptu það árið 2019. Ásgeir útskýrir að þá hafi það atvikast þannig að í skaut þeirra féll bakarí, þegar Kornið lét af starfsemi í húsinu. Ásgeir segir þá félaga þá hafa brugðist skjótt við og stofnað Brauðkaup, sem nú er orðið að Mossley.

„En markmiðið hefur alltaf verið að gera þetta að bar og grilli og að samkomustað Kársnesinga,“ segir Ásgeir sem segir þá félaga hafa fundið nafnið á staðinn í skjalasafni ríkisins.

„Þar fundum við kort sem Bandaríkjaher hafði notað til að kortleggja eftir sínum kennileitum. Þeir skírðu Kársnesið Mossley Knoll og það fannst okkur bara smellpassa, enda góð saga og skemmtilegt nafn. Svo er einhver bær í Bretlandi sem er líka Mossley, þannig að við erum að spá í að sækja um að verða vinabær. “

Mynd/Anton Brink

Lofa veislum

Ásgeir segir þá félaga lofa veislu þegar veiran skæða hættir loksins að hrella landsmenn og mannamót verða gjaldgeng á ný.

„Við erum með góðan sætafjölda og getum vonandi fyrr en síðar tekið á móti stórum og litlum hópum. Svo ætlum við að opna efri hæðina hjá okkur líka á næstu vikum og þar verður hægt að leigja sal, halda partí eða hreinlega bara horfa á Eurovision og hafa gaman.“

Ásgeir segir þá félaga alltaf hafa blásið til veislu úti í garði við hvert tilefni og segir hann ekkert lát verða á því á hinum nýja stað. „Við höldum árlega alls konar partí í garðinum, á 17. júní, októberfest og á vorin og ætlum að halda því áfram, þannig að þetta verði áfram samkomuhús fyrir Kársnes og Kópavog.“