Í Bretlandi geta nautgripir nú nýtt sér stefnumótaforritið „Tudder“ til að finna ástina í lífi sínu. Forritið er glænýtt og  nýtist bæði nautum og kúm. Forritið líkist mjög stefnumótaforritinu „Tinder“ sem fjölmargir mennskir Íslendingar hafa nýtt sér í leit að ást eða öðru.

Í lýsingu appsins segir að skráðir séu um 42 þúsund nautgripir á því og að þá sé að finna víðs vegar í Bretlandi. Þar segir einnig að með forritinu geti bændur tekið sér hlutverk „moo-pid“ með farsímum sínum og fundið hinn eina sanna eða einu sönnu fyrir nautgripinn sinn.

Bæði forritið og vefsíðan eru í eigu fyrirtækisins Hectare. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Doug Bairner, sagði í samtali við NY Post í síðustu viku eftir að forritið opnaði að það væri jafnvel auðveldara að fá svörun eða „match“ hjá kúnum en hjá mannfólkinu.

„Það er mikið magn gagna á vefsíðunni um þessi frábæru dýr sem spá fyrir um hvernig afkvæmi þeirra verða,“ sagði Bairner.

Eins og Tinder fyrir nautgripi

Þáttastjórnandinn sívinsæli, James Corden, fjallaði um forritið í þætti sínum The Late Late Show with James Corden. 

„Þetta er eins og Tinder fyrir nautgripi. Og þið hélduð að Tinder væri kjötmarkaður,“ sagði Corden.

Hægt er að horfa á klippu úr þættinum hér að neðan. 

Hér að neðan er hægt að finna meiri upplýsingar um forritið.