Heillaheimur (dAzzleMAZE) er upplifunarsýning fyrir allra yngstu áhorfendurna. Sýningin er í senn dansverk og innsetning. Heillaheimur býður upp á fjölþætta skynjunarupplifun og hvatt er til forvitni, könnunar, slökunar og íhugunar. Gestir mega koma inn í rýmið þegar þeir eru tilbúnir, fara út og koma aftur inn eins og hentar. Sýningar eru í Tjarnarbíói 17. júní, kl. 10-13 og 14-17. 18. júní, kl. 10-13 og 14-17 og 19. júní, kl. 10-13 og 14-17.

Sýningar föstudagsins og sunnudagsins eru ætlaðar ungum börnum á aldrinum 3-16 mánaða. Sýningin á laugardeginum er fyrir börn upp í 4 ára aldur.

Every Body Electric er dansverk eftir hina margverðlaunuðu Doris Uhlich. Hópur fatlaðra dansara fer með áhorfendur í ferðalag inn í kjarna hins mannlega. Hin austurríska Doris Uhlich hefur á síðustu árum ekki síst einbeitt sér að samvinnu við listafólk með líkamlega fötlun og leitað leiða til þess að skoða hreyfingar og hrynjandi líkamans í nýju ljósi. Verkið verður sýnt á sunnudag klukkan 17.00 í Silfurbergi, Hörpu.

Á sunnudag klukkan 21.00 verður Expat í í Open Gallerí á Granda. Expat er Mykki Blanco og Samuel Acevedo sem blanda leikrænni ljóðlist úr heimi svartra hinsegin listamanna saman við gotneska heavy metal-tónlistarhefð Mið- og Suður-Ameríku. Mykki Blanco er einn mest spennandi rappari samtímans og hefur sent frá sér plötur sem hafa hlotið frábæra dóma, unnið með tónlistarfólki á borð við Blood Orange og Kanye West en einnig vakið athygli fyrir ljóð sín.

Íslandsfrumflutningur strengjakvartettsins Spektral á verkinu Enigma verður á sunnudag í Stjörnuveri Perlunnar kl. 17.00 og 19.00. Verkið er eftir Önnu Þorvaldsdóttur og vídeólistamanninn Sigurð Guðjónsson, sem nú er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum. Enigma hefur verið lýst sem strengjakvartett af alveg nýjum toga; stórfenglegu verki á mörkum tónleika og innsetningar.

Sunnudag frá 12-17 við Elliðaárstöð verður gaman að mæta í Undraskóginn. Furðuverur leynast á milli trjánna og dilla sér í takt við tónlist úr smiðju S.L.Á.T.U.R.. Grímubúnir meðlimir Skýjasmiðjunnar og sirkuslistafólk Hringleiks koma gestum á óvart. Þykjó býður upp á ævintýralega furðufuglasmiðju. n

Hópur fatlaðra dansara fer með áhorfendur í ferðalag.
Fréttablaðið/Aðsend