Kolbeinn Höður Gunnarsson stóð sig afar vel í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fram fór í Laugardalshöll síðustu helgi. Hann setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi, þar sem hann bætti eigið met, auk þess sem hann vann gull í 60 metra hlaupi karla en hann bætti Íslandsmetið í þeirri grein fyrr á árinu.

„Það má segja að árangurinn í 60 metra hlaupinu hafi verið í samræmi við væntingar þó ég hefði viljað sjá betri tíma. En núna er bara spurning um að hitta á gott hlaup og þá er aldrei að vita hvað gerist,“ segir Kolbeinn. „200 metra hlaupið voru aðeins meira „wild-card“ þar sem ég var búinn að hlaupa nokkur hlaup sem voru ekki alveg að smella saman tæknilega séð. Ég vissi að ef ég næði að framkvæma 200 metrana vel og í góðri keppni gæti ég hlaupið hratt. En ég átti ekki von á því að brjóta næstum því 21 sekúndna múrinn, hvað þá innanhúss.“

Kol­beinn setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum síðustu helgi. Hann kom í mark á 21,03 sek­únd­um. Fyrra met hans frá ár­inu 2020 var 21,21 sek­únda. AÐSEND/GUNNLAUGUR JÚLÍUSSON

Stefnir á næstu Ólympíuleika

Stóra markmið Kolbeins er að komast á Ólympíuleikana í París árið 2024. „Það er þó ekki möguleiki nema ég komist á þessa Ólympíu- og afreksstyrki. Ég er búinn að vera harka í þessu meira og minna einn, fjármagna æfingaferðir sem og keppnisferðir úr eigin vasa á sama tíma og ég hef minnkað við mig vinnu til að geta einbeitt mér að hlaupunum. Þó hef ég fengið fjárhagslegan stuðning frá félaginu mínu, FH, sem og aðstoð frá fjölskyldu og vinum eins og þeir mögulega geta. Einnig vil ég þakka styrktaraðilum mínum, Nocco, Hreysti, Hleðsla/MS, Unbroken og Líf Kírópraktík.“

Kolbeinn með Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttu, Íslandsmethafa í 60 metra hlaupi innanhúss og 100 metra og 200 metra hlaupi utanhúss. Þau voru stigahæsti karl og stigahæsta kona mótsins. AÐSEND/GUNNLAUGUR JÚLÍUSSON

Fljótandi æfingarplan

Um þessar mundir er keppnistímabilið í hápunkti hjá Kolbeini svo æfingar eru mun meira fljótandi að hans sögn. „Þær fara svolítið eftir því hvernig mér líður hverju sinni sem og hvaða mót eru fram undan. Á uppbyggingartímabilinu sem er í september og nóvember er ég t.d. að æfa um 16-20 klukkustundir á viku og stundum aðeins lengur ef einstaka æfingar taka lengri tíma.“

Settist á skólabekk

Kolbeinn starfaði hjá PwC árin 2021-2022 en þurfti að hætta þar sem álagið var hreinlega of mikið samhliða íþróttinni. „Í dag stunda ég nám við Háskólann í Reykjavík á íþróttafræðibraut ásamt því þjálfa ég 7.- 8. bekk í frjálsum hjá FH fjórum sinnum í viku. Þegar ég er ekki að æfa, læra og þjálfa reyni ég að eyða eins miklum tíma og ég get með Heru, níu mánaða dóttur minni. Ég stefni fyrst og fremst á það að vera góður faðir fyrir dóttur mína eftir að hlaupaferlinum lýkur.“

Kolbeinn fagnar nýju Íslandsmeti með Melkorku Rán, liðsfélaga sínum hjá FH. AÐSEND/HLÍN GUÐMUNDSDÓTTIR

Spurt og svarað:

Hver er erfiðasti mótherjinn?

Það er ég sjálfur. Ég er í daglegri baráttu við sjálfan mig að rífa mig fram úr á morgnanna til að taka morgunæfinguna og peppa sjálfan mig upp á æfingum til að framkvæma eitthvað 3-5% betur. Það er svo auðvelt að detta í það að verða of góður við sjálfan sig á æfingum og í keppnum. Þetta er það sem er svo fallegt við frjálsar íþróttir: Þú ert vissulega að „keppa“ við aðra þegar þú stígur á línuna, en í rauninni ertu alltaf í grunnin að keppa við þig sjálfan. Ég legg skóna á hilluna þann dag sem ég finn að ég er farinn að sannfæra sjálfan mig að ekki leggja mig 110% fram við þetta.

Hvernig kemur þú þér í gírinn fyrir mót?

Ég reyni alltaf að nálgast öll mót með smá kæruleysi. Ég stend mig alltaf best þegar ég næ að koma inn í keppnina yfirvegaður en ákveðinn. Daginn fyrir mót að þá á ég það til að sækja innblástur í „nördinn“ í mér, en þá horfi ég á Ride of the Rohirrim senuna úr þriðju Lord of the Rings myndinni. Ég mæli með henni ef þið viljið alvöru gæsahúð.

Daginn fyrir mót sækir Kolbeinn oft innblástur í Ride of the Rohirrim senuna úr þriðju Lord of the Rings myndinni. „Ég mæli með henni ef þið viljið alvöru gæsahúð,“ segir Kolbeinn.

Hver er uppáhaldsæfingin og hver er í minnstu uppáhaldi?

Þegar maður er kominn á þennan stað sem ég er að þá er engin æfing í meira eða minna uppáhaldi. Ég lít á hvern dag og hverja æfingu sem tækifæri til þess að verða bara aðeins betri. Ég hugsa alltaf með mér eftir æfingu dagsins: Ég er betri í dag en ég var í gær. Einnig reyni ég að ítreka það við æfingarfélaga mína líka.

Ertu morgunhani eða finnst þér gott að sofa út?

Bæði. Ég tek tímabil þar sem ég vakna eldsnemma til að ná lyftingaræfingu um morguninn en það er oftast í kringum uppbyggingartímabilið í september, október og nóvember. Svo þegar áherslur á æfingum breytast verður álagið allt öðruvísi. Þá sef ég aðeins lengur en ég held að vetrarmyrkrið setji alveg stórt strik í reikninginn þar líka.

Hvað færðu þér oftast í morgunmat?

Hafragrautur soðinn upp úr möndlumjólk, frosin bláber alveg í restina, þrjú spæld egg, Hleðsla og glas af Unbroken. Ef ég fer seint fram úr að þá skýst ég á Ísey Skyr og nýti mér morguntilboðið hjá þeim og fæ mér 1001 Nótt Booztið með vanillu skyri. Svo er alltaf til Special K til öryggis ef ég þarf að grípa í eitthvað fljótt.

Kolbeinn með Mörtu Maríu B. Siljudóttur, verkefnastjóra miðlunar hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. AÐSEND/HLÍN GUÐMUNDSDÓTTIR

Hvað finnst þér gott að fá þér í kvöldmat?

Ég elda mér alltaf hádegismat og kvöldmat fyrir næstu þrjá daga í senn. Þá sker ég oft þrjár kjúklingabringur til helminga í sex bita og set í stórt eldfast mót. Næst helli ég oftast Tikka-masala sósu yfir en reyni að prófa hinar og þessar sósur. Svo hendi ég slatta af sætum kartöflum með, lauk, sveppum, papriku, hvítlauk og spergilkáli. Rétt áður en ég borða sýð ég svo hrísgrjónin og rista kasjúhnetur á pönnu.

Hvað finnst þér gott að fá þér í millimál?

Hrískökur með hnetusmjöri og grænum eplum, banana, Barebell prótínstykki eða Hleðslu. Þetta þarf að vera eitthvað sem er fljótlegt að gera og auðvelt að grípa með því ég er oftast eitthvað á ferðinni.

Hvað gerir þú til að halda andlegu heilsunni í jafnvægi?

Andlega heilsan er eitthvað sem ég hef verið að berjast við upp á síðkastið. Hún hefur því miður fengið að sitja á hakanum sökum tímaleysis og peninga. Það sem hefur haldið mér gangandi síðustu misseri er hreinlega að halda mér sem mest uppteknum. Svo er hreyfing auðvitað rosalega góð fyrir andlegu hliðina svo það hjálpar að vera hreyfa sig eins mikið og ég er að gera.

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar í íþróttum og í lífinu?

Í lífinu eru foreldrarnir auðvitað helstu fyrirmyndirnar mínar. Ég hef síðan byrjað að tileinka mér það að hugsa um „fyrirmyndirnar“ á þennan veg: „Work until your idols become your rivals“. En til að gefa þetta klassíska svar, ætli helsta átrúnaðargoðið í frjálsum sé ekki Usain Bolt.

Helsta átrúnaðargoðið Kolbeins í frjálsum íþróttum er Usain Bolt frá Jamaíka. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY