Þeir Egill Kaktuz Þorkelsson, Michael Reid og Yonathan Belik eru partur af hópnum sem stendur að verkefninu Eitthjól Ísland, en þeir stefna á heimsmet á Íslandi. Þetta yrði þriðja heimsmet Michaels, en hann hefur verið búsettur hérlendis í um fjögur ár og starfar sem jöklaleiðsögumaður. Egill er í Sirkus Íslands og sérhæfir sig í grippli, sem er íslenska orðið yfir það að halda mörgum boltum á lofti í einu. Hann er einnig mjög fær á einhjóli, en þegar blaðamaður segist hafa tekið eftir nokkrum á slíku undanfarið stendur ekki á svörum.

„Það hefur örugglega bara verið ég,“ segir hann og hlær.

Ofur gripplari

Það eitt og sér er merkilegt hvað Egill er fjölhæfur, eða ofur gripplari eins og Michael kallar hann, en það er enn þá merkilegra í ljósi þess að hann þjáist af vöðvarýrnunarsjúkdómi. Michael virðist hans helsti stuðningsmaður og segir það magnað hversu langt hann hefur komist á sviðum sem krefjast líkamlegrar hæfni þrátt fyrir sjúkdóminn.

„Ég komst að því um tvítugt að ég væri með þennan ættgenga vöðvarýrnunarsjúkdóm. Síðan þá hef ég reynt að ögra sjálfum mér og líkama mínum, í það minnsta meðan ég hef fulla stjórn á mínu lífi og limum. Það er ástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að gera allt sem ég get, hvern einasta dag, til að lífa lífinu til fulls og fara út fyrir þægindarammann,“ segir Egill Kaktuz.

Næsta heimsmet

Næsta heimsmetið sem þeir stefna á er að fara einn kílómetra á einhjóli á meðan þeir grippla.

„Fyrsta metið okkar var í að ferðast lengstu vegalengd á smáhjóli. Sigríður Ýr Unnarsdóttir tók þátt í því og það fékk nokkra umfjöllun hérlendis. Nú hef ég tekið þátt í þremur heimsmetum en við stefnum á að slá þessi tvö til viðbótar. Fimmta metið snýst um að fara kringum landið á einhjóli og taka þátt í ýmsum viðburðum í kringum landið á leiðinni,“ segir Michael.

Staðfesting frá borgarstjóra

Fyrst stefna þeir þó á, eins og áður sagði, að grippla á einhjólum heilan kílómetra. Michael viðurkennir að eflaust hafi einhver gert það áður, en það sé mjög flókið og erfitt ferli að fá slíkt viðurkennt af heimsmetabók Guinness. Til þess þurfi meðal annars staðfestingu frá borgar- eða bæjarstjóra.

„Við þurfum að útvega helling af gögnum og staðfestingum. Við þurfum til dæmis að fá borgar- eða bæjarstjóra til að sýna tilrauninni athygli. Ef tré fellur í mannlausum skógi, gerðist það yfirleitt?“ segir Michael og hlær.

Ekki bara ferðabæklingur

Vonir standa til að gera sjónvarpsþætti um för þeirra í kringum Ísland.

„Það hefur enn ekki verið fullkomlega staðfest en við vonum það besta. Mig langar mikið að sýna þá fegurð sem landið hefur upp á að bjóða. Ég hef kynnst því vel, ekki bara af því að ég bý hér heldur einnig sem leiðsögumaður. Ég hef séð hina sönnu fegurð þessa lands og fólksins sem býr hérna. Mig langar því mikið að fagna þessum fjórða áfanga með fólkinu hérna heima því hin metin hafa verið sett í útlöndum,“ segir Michael. „Ísland er svo miklu meira en bara ferðamannabæklingur,“ bætir hann við.

Egill Kaktuz og Michael lýsa því eftir borgar- eða bæjarstjórum í kringum landið sem vilja leggja þessu áhugaverða verkefni lið.