„Viðtökurnar hafa verið alveg hreint dásamlegar og ég er innilega þakklátur öllum þeim sem hafa gefið sér tíma til þess að upplifa verkin mín,“ segir Stefán Elí og bætir við að það sé yndislegt að fá að deila sköpun sinni með heiminum.

„Það gleður mig innilega að heyra hversu góð áhrif mín list hefur á fólk,“ heldur listamaðurinn áfram sem sækir innblástur í ferðalög sín um þennan heim og aðra að handan.

Stefán Elí er meðal annars innblásin af ferðalögum sínum um þennan heim sem og handanheima.

„Ég ferðaðist mikið á síðasta ári og eyddi meðal annars þremur mánuðum í Mexíkó og bjó í sex mánuði í Gvatemala,“ segir Stefán Elí sem lætur hluta af söluverði málverka sinna renna til barnafjölskyldna við Atitlán-vatnið þar í landi.

„Peningurinn fer í að kaupa myndlistabúnað, hljóðfæri og tónlistarbúnað. Ég er í samstarfi við góðgerðarsamtökin EYEAMU sem styðja á ýmsa vegu við fólkið í Gvatemala,“ heldur Stefán Elí áfram og bendir á að nýlega hafi sala á myndlist dugað til að reisa hús yfir sjö barna fjölskyldu, kaupa eldavélar fyrir sautján fjölskyldur og færa 150 börnum í þorpum nýja skó og sokka.“