Starfsmenn Samherja á Dalvík og á Akureyri fagna því að geta loks hist til að skemmta sér en starfssemi starfsmannafélaganna hefur legið niðri undanfarna mánuði vegna heimsfaraldursins.

„Já, já, svo að segja öll starfsemi hefur legið niðri hjá okkur síðan heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga, þannig að það er mikil tilhlökkun hjá okkur að koma saman á nýjan leik, maður finnur það greinilega á fólki,” segir Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður Fjörfisks, sem er starfsmannafélag Samherja á Dalvík, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar kemur fram að starfsmennirnir ætla í Skagafjörð saman í september og í október ætla þau á villibráðakvöld.

„…skráningin er afskaplega góð, sem undirstrikar hversu langþráð það er að hittast á nýjan leik og hafa gaman saman,” segir Ragnheiður Rut.

Sama er uppi á teningnum hjá Starfsmannafélagi ÚA á Akureyri, STÚA, þar er farið að skipuleggja dagskrá vetrarins. Óskar Ægir Benediktsson formaður segir í tilkynningunni að vegna heimsfaraldursins hafi starfsemin legið í dvala, rétt eins og hjá öllum öðrum sambærilegum félögum.

„Við náðum að halda aðalfund í mars og fara saman út að borða í febrúar í fyrra. Að öðru leyti má segja að félagsstarf hafi legið niðri í nærri tvö ár en sem betur fer sjáum við fram á jákvæðar breytingar.”

Tilkynningin er aðgengileg hér.