Hver planar hittinga í vinahópnum? Hver setur í og tekur úr uppþvottavélinni á vinnustaðnum? Hver passar upp á stórafmælin í vinnunni? Þessi verkefni eru eingöngu fáein dæmi um verkefni sem falla undir hina svokölluðu „Þriðju vakt“. Þriðja vaktin er fyrirbæri sem vísar til þess andlega álags sem fylgir því að sinna skipulagi í kringum heimili og aðra staði. „Þetta er einnig stundum kallað að vera framkvæmdastjóri heimilisins. En þriðja vaktin leynist mun víðar en bara á heimilinu og það má finna hana á vinnustaðnum, í vinahópnum og víða annars staðar. Þessi verkefni eiga það þó flest sameiginlegt að vera vanalega unnin af konum,“ segir Björgheiður Margrét Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Alvotech og stjórnarmeðlimur UAK (Ungar athafnakonur).

Konur taka boltann

Mamma gerði það, og gerir enn, mamma hennar gerði það líka og amma, og mömmur þeirra og ömmur. Allar þessar konur stóðu þriðju vaktina án þess að kvarta yfir því að þetta óskilgreinda hlutverk, sem það var þá, færðist sjálfkrafa yfir á þær þegar þær fluttu að heiman og stofnuðu fjölskyldur.

Oft er vitnað í þá aldagömlu klisju að konur séu einfaldlega eðlislægt betri í að skipuleggja heimilishaldið, og hvað varðar þrif, þá séu konurnar með lægri skítaþröskuld en karlarnir. Því sé það augljóslega á hendi konunnar að ákveða og segja til um hvenær eigi að ryksuga, skúra eða þurrka af, og sjá enn fremur um að útdeila verkefnunum ef hún er svo „heppin“ að eiga maka sem hjálpar til á heimilinu. „Jafnvel er gengið svo langt að kalla karlmenn sem skúra stundum og ryksuga á heimilinu hetjur. Þetta snýst ekki um hver er með lægri skítaþröskuld. Ástæðan fyrir því að það er sett í vél á hverjum degi er ekki sú að við viljum að þvotturinn sé hreinn, heldur til þess að heimilisfólk sé í hreinum fötum og að þvotturinn safnist ekki upp í fjöll sem verður óyfirstíganlegt að ná niður aftur. Þriðja vaktin snýr að skipulaginu í kringum þvottinn, ekki endilega að þvo hann. Og við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þetta er lýjandi starf til lengdar.

Byrjar snemma

Þriðja vaktin er ekki eitthvað sem við göngum inn í án undirbúnings og þjálfunar. Síður en svo, því þjálfunin byrjar mun fyrr en við gerum okkur grein fyrir. Staðalímyndir um hlutverk kvenna og karla eru sífellt fyrir augunum á okkur og birtast í auglýsingum, bíómyndum og innan stórfjölskyldunnar. Þrátt fyrir að við séum komin langt á Íslandi þá þurfum við sem samfélag að taka enn betur á þessu strax í æsku. Það þarf að virkja strákana í þátttökunni í verkefnum heimilisins á sama hátt og er gert í tilfelli stelpnanna þannig að þeir taki meiri ábyrgð síðar.“

Aftari röð: Vala Rún Magnúsdóttir, Andrea Gunnarsdóttir, Bjarklind Björk Gunnarsdóttir og Björgheiður Margrét Helgadóttir. Fremri röð: Amna Hasecic, Kristjana Björk Barðdal og Inga María Hjartardóttir.

Þær kannast allar við þriðju vaktina

Á dögunum birti Björgheiður grein um þriðju vaktina í fréttamiðlum og segir viðbrögðin hafa verið mikil. „Ég hef fengið mjög mikla svörun við greininni, aðallega frá konum sem kannast vel við þessa andlegu ábyrð, og margar hverjar að uppgötva í fyrsta sinn að hún eigi sér nafn. Ég hef reyndar ekki enn þá hitt þá konu sem tengir ekki við þessa þriðju vakt á einn eða annan hátt. Það þarf ekki nema að nefna eitt eða tvö dæmi. Á ljósaperunni kviknar strax og þær eru tilbúnar með að minnsta kosti fimm dæmi í viðbót á innan við fimm sekúndum. Langflestar áttuðu sig ekki einu sinni á því hversu þung ábyrgðin væri orðin né að þær væru bara einar á vaktinni. En ég bíð enn eftir viðbrögðum karla sem standa sig að því að standa þriðju vaktina eða taka ekki þátt í henni.“

En hvernig er hægt að dreifa ábyrgðinni?

„Þó svo að í langflestum tilfellum standi konur þriðju vaktina eru auðvitað til einstaklingar af öllum kynjum sem kannast og tengja við þessa vakt. Og það er enginn að segja að þeir karlar sem taka ekki þátt séu letingjar sem gera ekkert. Langoftast er eina ástæðan fyrir því að þeir sinna vaktinni ekki sú að þeir átta sig ekki á því að hún sé til. Jafnvel þótt við reynum að útskýra, þá ná þeir ekki að tengja við þetta hugtak.“ Það er enda mun auðveldara að koma auga á það sem er, heldur en það sem vantar. Það er oft erfitt að taka eftir því að gólfið hafi verið þrifið, afmælisgjöfin verið keypt, læknisheimsóknin bókuð ef maður hefur ekki gert það sjálfur. „Hún hefur jú alltaf séð um þetta,“ hugsa margir.

„Það er líka mjög erfitt að útskýra af hverju það að muna eftir að kaupa allar afmælisgjafir sé svona rosalega erfitt starf. En málið er bara, að þegar allir þessir litlu hlutir safnast saman, þá tekur þetta gífurlega mikið frá andlegu rými, og það verður erfiðara að sinna grunnþörfum eins og svefni og andlegri heilsu, frama, áhugamálum og svo framvegis. Þetta er jafnréttismál. Þriðja vaktin hefur áhrif á starfsframa ungra kvenna og getur auðveldlega aukið líkur á kulnun. En kulnun er eitthvað sem er mun algengari hjá konum heldur en körlum þegar borin eru saman sambærileg störf.“ Þess má geta að UAK hélt á dögunum stórmerkilegan stafrænan viðburð sem kallaðist Ofurkonan þú, þar sem sérfræðingar fjölluðu um fyrirbærið Ofurkonuna með gagnrýnum hætti. Hægt er að sjá fyrirlestrana á Facebook-síðu UAK.

Samfélagið þarf líka að axla ábyrgð. Þegar skólar og leikskólar hringja í foreldra barna út af einhverju, í hvern er hringt? Yfirleitt eru það mæðurnar sem sjá ósjálfrátt um samskipti heimilisins og skólans. Og jafnvel þó svo faðirinn sé mun betur í stakk búinn til að sjá um þessi samskipti, og það hafi jafnvel verið beðið sérstaklega um að hann sé samskiptaaðila við skóla, þá er samt hringt fyrst í móðurina. Ekki alltaf, en oft.

Björgheiður segir að langflestar konur sem hún hefur rætt við kannist vel við þriðju vaktina um leið og henni er lýst fyrir þeim. myndir/aðsendar

Fjölga starfsmönnum

Fyrsta skrefið er að viðurkenna að þriðja vaktin sé raunveruleg ábyrgð, hún sé lýjandi fyrir þann sem stendur hana einn og meta þessa ósýnilegu vinnu að verðleikum. Næsta skref er að taka eftir því hvort maður sjálfur sé sá sem stendur vaktina, eða hvort maður sé sá sem tekur ekki þátt í henni. Lokaskrefið er að þeir sem kannast ekki við að standa vaktina, gangist í auknum mæli við ábyrgðinni svo hún lendi ekki ósjálfrátt á sama fólkinu.

Það getur að sama skapi verið erfitt fyrir þá sem eru vanir að sinna ábyrgð þriðju vaktarinnar, að sleppa takinu, því það gæti allt eins endað í ósköpum og þvottahrúgum á stærð við lítinn fjallgarð. Það er mikilvægt að leyfa fleirum að spreyta sig á þriðju vaktinni, treysta þeim fyrir ábyrgðinni og leyfa þeim að gera hlutina á sinn hátt, án þess að gagnrýna stanslaust. „Pabbi minn til dæmis tók yfir þvottahúsið á heimilinu mínu þegar ég var yngri. Hann kannski óvart þvoði einu sinni rauðan sokk með hvítu handklæðunum, en svo bara sá hann um þetta í mörg ár með glæsibrag.“ En það að standa þessa vakt einn, jafnvel eftir heilan vinnudag og heimilisstörf, hefur afskaplega lýjandi áhrif á fólk. „Þriðju vaktinni lýkur aldrei. Þú slekkur aldrei á heilanum sem planar í þaula, hugsar um allt sem á eftir að gera. Það er ekki hægt að stimpla sig út af þriðju vaktinni. Það eina sem er hægt að gera er að fjölga starfsfólki á henni.“

Hver er ávinningurinn?

Það getur verið mjög gefandi að taka þátt í þriðju vaktinni og í svæsnustu tilfellum getur það bjargað hjónabandinu. Ein birtingarmynd þriðju vaktarinnar er nefnilega hið svokallaða „nöldur“. „Nöldrið verður sjaldnast til af sjálfu sér, það liggur alltaf eitthvað að baki. Ef maki þinn er alltaf að nöldra í þér að þú skiljir handklæðið eftir á gólfinu, þá er engin lausn falin í því að biðja hann um að hætta að nöldra. Lausnin er að þú gangir frá handklæðinu á viðeigandi stað eftir notkun án þess að það þurfi að biðja þig um það. Þarna hefurðu tekið agnarsmátt skref í áttina að því að axla ábyrgð.“

Þeir sem byrja að sinna þriðju vaktinni í auknum mæli taka líka aukinn þátt í sínu eigin lífi og komast oft að einhverju um sjálfa sig sem þeir vissu ekki áður. „Ein vinkona mín og maðurinn hennar ákváðu eitt sinn að skipta hlutverkum í einn dag. Hún fór út á róló með syni þeirra tvo að leika, og hann var heima að baka sunnudagskökuna. Kom í ljós að honum fannst bara rosa gaman að baka og var góður í því. En hún hafði alltaf tekið þetta hlutverk að sér því hún hélt hún væri betri í því. Það getur verið hollt að skiptast á hlutverkum, frekar en að reyna að útskýra verkefnin með orðum.“