Ég fann minn draumastað í Völuskarðinu. Húsið mun rísa stutt frá æskustöðvunum og foreldrar mínir, bræður og fjölskyldur þeirra búa enn öll í Hafnarfirði. Svo er þetta alveg í jaðri við náttúruna og þar líður mér best,“ segir stangarstökkvarinn frækni og landsfrægi Þórey Edda Elísdóttir.

Þórey er menntaður umhverfisverkfræðingur, búsett á Hvammstanga en hefur nú ákveðið að reisa fjölskyldunni Svansvottað hús í gamla heimabænum.

„Flutningarnir til Hvammstanga voru alltaf hugsaðir tímabundnir, á meðan börnin væru lítil. Við höfum ekki tekið endanlega ákvörðun með flutningana suður en þó er líklegt að af þeim verði innan nokkurra ára og Guðmundur, maðurinn minn, hefur samþykkt ósk mína um að staðsetja framtíðarhús fjölskyldunnar í Hafnarfirði. Við höfum þó tengst Hvammstanga tryggðarböndum og þar mun okkar annað heimili alltaf verða.“

Afsláttur af lóðarverði

Það sem heillaði Þóreyju ekki síst við byggja sér hús á heimaslóð var að Hafnarfjarðarbær gefur afslátt af lóðarverði fyrir vottuð hús.

„Það finnst mér til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir önnur sveitarfélög. Þá eru göturnar svokallaðar vistgötur og umhverfið allt heillandi,“ segir Þórey sem er mikill náttúruunnandi.

„Strax á barnsaldri fannst mér gaman að læra um líffræði, náttúrufræði og stærðfræði. Því lá eiginlega beinast við að læra umhverfisverkfræði. Í henni er unnið með lausnir í umhverfismálum og er því jákvæður vinkill inn í umhverfismálin sem geta oft verið íþyngjandi,“ segir Þórey og heldur áfram:

„Við eigum bara eina jörð, en Vesturlandabúar lifa eins og þær séu allt að fimm. Það endar ekki vel nema við breytum lifnaðarháttum okkar og venjum, og komum með lausnir sem stuðla að aukinni sjálfbærni.“

Hér má sjá glæsilegt hús Þóreyjar Eddu, sem hún hannaði sjálf og útfærir til að mæta ströngum kröfum Svansvottunar.

Flókið verkefni í fyrsta sinn

Þórey stefnir að opnun verkfræðistofunnar Visthönnunar á næstu dögum. Hún hannar Svanshús fjölskyldunnar frá grunni, fyrir utan raflagnir og loftræstingu sem hún hefur ekki kunnáttu né leyfi fyrir.

„Samkvæmt deiliskipulagi á húsið að vera á tveimur hæðum með hallandi þaki aftur og það verður með svalir yfir bílskúr. Meginklæðning verður hitameðhöndlað timbur sem er endingargott og viðhaldslítið,“ upplýsir Þórey.

Hún segir snúið að vinna að svo flóknu verkefni í fyrsta sinn og sitthvað vefjast fyrir í hönnunarferli og framkvæmd hússins.

„Skyldukröfur Svansins eru 41 talsins og stigakröfur fjórtán, svo það er að mörgu að huga. Þetta verður auðveldara þegar ég fer í gegnum ferlið í annað og þriðja sinn. Það var þó nákvæmlega út af þessu sem ég vildi fara út í þessa framkvæmd. Mér fannst ég ekki getað boðið öðrum upp á þjónustu á einhverju sem ég hefði aldrei gert áður, þótt ég hafi í raun öll réttindi til þess. Svo vildi ég líka fara að huga að því að eignast húsnæði í Hafnarfirði.“

Hægt er að fylgjast með framkvæmdunum frá upphafi til enda undir nafninu Visthönnun á Facebook og Instagram, og vefsíðan visthonnun.is er í vinnslu.

„Með því að hafa ferlið opið vil ég sýna fólki að það er vel mögulegt að byggja sér umhverfisvænna hús. Hjónin Finnur Sveinsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir ruddu veginn og byggðu fyrsta Svansvottaða húsið á Íslandi. Þau hafa gefið út mikið af efni sem hjálpar mér og öðrum að fara sömu leið og ég vona svo sannarlega að ég geti líka hvatt aðra til að fara þessa leið,“ segir Þórey.

Þórey Edda og Guðmundur una hag sínum vel á Hvammstanga en hann hefur þó samþykkt ósk hennar um að reisa framtíðarheimili fjölskyldunnar í Hafnarfirði. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGUR ARI

Verðmæti hússins er meira

Á Íslandi hafa hingað til verið byggð hús með tvenns konar vottanir, Svansvottun og BREEAM-vottun. „Ég þekki Svansvottunina betur og vildi sem hönnuður byrja á að læra meira um hana. Seinna vil ég kynna mér BREEAM-vottunina betur og vonandi koma að hönnun slíkra bygginga. Svansvottun gerir ekki bara kröfur um umhverfisvernd heldur eru heilsuspillandi efni ekki heldur leyfð í bygginguna. Það fannst mér líka vega þungt í þessari ákvörðun.“

Að byggja Svansvottað hús krefst mun meiri eftirfylgni á öllum stigum framkvæmda.

„Í því felst að byggingin fær líka aukin gæði. Til dæmis þarf að halda utan um öll efni sem notuð eru í húsið, alveg niður í tegundir kíttis, og þarf að skila inn efnalista yfir öll efni til Svansins. Jafnframt þarf að vera með rakavarnarfulltrúa sem gengur úr skugga um að raki sé ekki innilokaður í byggingarferlinu, en það er gert til að lágmarka myglu,“ útskýrir Þórey.

Sömuleiðis þarf að framkvæma loftþéttleikapróf til að orkunotkun hússins verði sem minnst.

„Orkunotkun þarf að vera 70 prósent minni en í venjulegum húsum og til að ná því markmiði þarf að nota loftræstikerfi með varmaendurvinnslu í húsið. Það sparar ekki bara orkunotkun heldur eykur líka gæði innivistar. Allt hjálpar þetta við að gæði hússins verði meiri,“ segir Þórey.

Í gegnum Visthönnun vill hún geta boðið upp á umsjón með þessu öllu. „Ég vil geta séð um hönnun (aðaluppdrætti, burðarvirki og lagnir), alla umsýslu vegna Svansvottunar, eftirlit og prófanir.“

Þórey segir byggingu Svansvottaðs húss ekki eins kostnaðarsama og margur heldur.

„Hönnunarkostnaður og utanumhald er eitthvað dýrara vegna fleiri þátta sem verkfræðingur eða arkitekt sinnir, og einnig þarf að bæta við loftræstihönnun og loftræstikerfi. Efniskostnaður er lítið meiri og fullt af efnum í venjuleg hús ganga líka í Svansvottuð hús. Við bætist krafa Svansins um flokkun á byggingarstað og því fylgir einhver aukinn kostnaður. Á móti kemur að verðmæti hússins er meira.“

Svansvottunin heillar mest

Þórey vinnur nú að fyrstu fjórtán skyldukröfunum í Svansvottuninni og er alveg við að skila inn aðaluppdráttum af húsinu.

„Síðan taka við burðarþolsreikningar. Ég hef einnig hafið samvinnu við BYKO og verða flest efni í húsið keypt þar. Þar er mikill metnaður að bjóða fjölbreytt efni sem eru leyfileg í vottuð hús og mikil þekking að byggjast upp hjá starfsmönnum þegar kemur að efnisvali. Það hjálpar mikið að fá slíka þjónustu í mínu fyrsta verkefni,“ segir Þórey, full tilhlökkunar fyrir framhaldinu.

„Það er sjálf Svansvottunin sem heillar mig mest við nýja húsið. Ég er líka spennt að sjá hvernig verður að vera með loftræstikerfi. Svo er húsið úr krosslímdum timbureiningum og ég er mjög spennt að upplifa hvernig er að búa í húsi úr því byggingarefni,“ segir Þórey hvergi bangin fyrir krefjandi verkefni, enda býr hún að hugrekki stangarstökkvarans sem nýtist eflaust líka við smíðarnar.

„Stangarstökkið nýtist mér við allt sem ég tek mér fyrir hendur í lífinu,“ segir hún og brosir.

Fylgist með framkvæmdum Þóreyjar Eddu á Facebook, undir Visthönnun, og á Instagram, undir Visthönnun.