„Stami hefur verið líkt við ísjaka. Við sjáum aðeins lítinn hluta af honum og stærsti hluti hans er okkur hulinn. Eitthvað sem heyrist ekki og undir niðri eru margvíslegar tilfinningar sem oft getur reynst erfitt að takast á við,“ segir Brynjar Emil Friðriksson, stjórnarmaður í Málbjörgu, félagi fólks sem stamar og aðstandenda þess.

Megin markmið félagsins eru að stuðla að umræðu um stam og vera vettvangur fyrir sjálfshjálp með því að skipuleggja félagslega viðburði og veita upplýsingar um meðferðarúrræði og talþjálfun.

„Margir einstaklingar sem stama, sem og foreldrar barna sem stama, hafa sótt styrk og sjálfseflingu í félagsskap annarra með sömu reynslu og við lítum svo á að sá þáttur sé ómetanlegur hvað eflingu lífsgæða snertir,“ segir Brynjar Emil.

Brynjar segir staðlaða birtingarmynd stams vefjast talsvert fyrir þeim sem ekki stama og hljóðlausa stamið sé fólgið í alls konar „trikkum“ til þess að komast hjá því að stama. Til dæmis ræskingum, ákveðnum hreyfingum, „sko“ og fleiri hikorðum.

Leyfið okkur að klára

„Endurtekningar, lengingar á orðum, hik og tafs. Allt er þetta stam. Þannig að birtingarmyndirnar eru allaveganna fleiri en þetta Hollywood stam sem er alltaf bara þetta ba-ba-ba… sem fólk tengir við í bíómyndum. Þetta er ekki bara það sem þú sérð í A Fish Called Wanda.“

Þá sjaldan sem stam birtist í fjölmiðlum, kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum, sé það oftar en ekki notað manneskjunni til minnkunar eða að gera hana að aðhlátursefni.

Brynjar segir þennan útbreidda misskilning valda því að fólk hafi ríka tilhneigingu til þess að grípa fram í fyrir þeim sem stamar og botna setningar með því að giska í eyðurnar þegar þau festast.

Málbjörg brást við þessu með auglýsingaherferð í samstarfi við Brandenburg 2020, með áherslu á að fólk leyfði þeim sem stama að klára setningarnar.

„Þetta er raunveruleikinn. Hann er bara svona,“ segir Brynjar Emil, sem þekkir þetta vel af eigin raun. „Fólk heldur náttúrlega bara að það sé að hjálpa manni með þessu þannig að þetta er endalaus barátta.“

Brynjar bendir á að það sé meira en að segja það að biðja fólk um að taka tillit til þess að hann stami og leyfa honum að klára. „Þetta getur verið sérstaklega erfitt ef maður er að hitta fólk í fyrsta skipti og vill ekki drepa strax stemninguna. Maður vill bara geta sagt brandara án þess að stama. Það eyðileggur einhvern veginn allt andrúmsloft að vera að þessu stami og maður fer bara einhvern veginn í þennan gír að nota sér þessi trikk.“

Hlegið að fordómum

Baráttan er því grínlaus, en Brynjar Emil og félagar hans í Málbjörg eru þó alveg til í að bregða á leik, enda geti húmorinn verið ágætis vopn til að koma góðum málstað á framfæri og þannig hefur félagið teflt grínsketsum fram til þess að vekja athygli á þeim fordómum sem þau sem stama verða oft fyrir.

Þegar Málbjörg varð 30 ára í október í fyrra kom heimsfaraldurinn vitaskuld í veg fyrir að tímamótunum væri fagnað með hefðbundnum hætti. „Þá datt okkur í hug þessi grínsketsaherferð sem ég held alveg örugglega að sé stærsta verkefnið sem við höfum farið út í.

Félagið leitaði til Dóru Jóhannsdóttur leikkonu sem fékk Arnór Pálma Arnórsson til liðs við sig og þau sömdu og leikstýrðu fimm grínatriðum sem taka á mismunandi birtingarmyndum stams.

„Við fengum mikil og góð viðbrögð frá stam-samfélaginu og erum við himinlifandi með útkomuna,“ segir Brynjar Emil um sketsana, sem voru frumsýndir undir lok síðasta árs og eru enn aðgengilegir á YouTube.