Sylvester Stallone er byrjaður að undirbúa tökur á fimmtu myndinni um fyrrverandi hermanninn John J. Rambo og stefnir á frumsýningu á næsta ári. Hann hefur látið þau boð út ganga að undirtitill myndarinnar verði Last Blood sem bendir eindregið til þess að hann ætli með henni að ljúka kvikmyndasögu Rambós sem hófst með First Blood 1982.

Í Rambo: Last Blood er Rambó loksins sestur í helgan stein á búgarði í Arizona eftir áratuga vígaferli en dregur fram veiðimannahnífinn og stóru byssuna eina ferðina enn þegar blaðamaður fær hann til þess að skreppa yfir landamærin til Mexíkó og bjarga þar stúlkum úr klóm mansalsdólga.

Stallone var 36 ára þegar hann lék Rambó í First Blood, stórgóðri spennumynd gerðri eftir samnefndri skáldsögu Davids Morrell. Þar leggur Rambó, laskaður á sálinni eftir Víetnam-stríðið, bandarískan smábæ í rúst eftir að hafa fengið óblíðar móttökur hjá lögreglunni.

Ekki lifði hann þann hildarleik af í bókinni en í kvikmyndunum lifir hann enn. Vinsældum First Blood var fylgt eftir 1985 með Rambo: First Blood Part II þar sem kappinn skrapp aftur til Víetnam og bjargaði bandarískum stríðsföngum. Í Rambo III frá 1988 hélt Rambó í leiðangur til Afganistan og tuskaði til Rússana þar í landi.

Eftir þá herferð tók Stallone sér 20 ára frí frá Rambó en sneri aftur með látum í fjórðu myndinni sem heitir einfaldlega Rambo og nú tíu árum síðar er hnyklar hann vöðvana á ný, 72 ára gamall, 36 árum eftir að hann lék Rambó fyrst.